Búddingspúlver, Húsblas, Makaróní


Auglýsing frá versluninni

Auglýsing frá versluninni yfir þær vörur sem komu með skipunum "Lauru" og "Morsö" fyrir jólin 1902. Alls var verðmæti sendinganna beggja 80.000 krónur og átti að selja vörurnar með mjög litlum ágóða. Meðal þess sem kom voru jólakökur, marsipanmyndir á jólatré, vindlar og vín, þvottastell og leikföng. (Borgarskjalasafn Reykjavíkur: Smáprent, fregnmiðar og auglýsingar)


Upp úr aldamótunum 1900 tók Reykjavíkurbær að stækka hraðar en áður hafði þekkst. Bændaþjóðfélagið ásamt vöruskiptaverslun tók að víkja fyrir borgarsamfélagi þar sem peningar urðu í auknum mæli notaðir við verslun. Þá höfðu breyttir samgönguhættir, þ.e. brýr, strandferðaskip og vagnvegir einnig áhrif á að Reykjavík styrktist sem miðstöð verslunar.

Í kjölfar þess lifnaði yfir verslunarmenningu bæjarins. Verslanir urðu meira deildaskiptar í anda Magasin du Nord í Kaupmannahöfn. Ein þessara verslana var Thomsens Magasin. Um 1890 var versluninni skipt í tvær deildir og eftir 1902 óx verslunin óðfluga. Á blómatíma Thomsens Magasins skiptist það í fjölda deilda: basardeild, ferðamannadeild, húsgagnadeild, járn- og leirvörudeild, karlmannafatadeild, kvenfata- og vefnaðarvörudeild, kvenhattadeild, kjallaradeild, matvörudeild, nýlenduvörudeild, pakkhúsdeild, skófatnaðardeild, strandferðadeild, vindladeild og skrifstofudeild.

Á vegum verslunarinnar var einnig rekin kjólasaumastofa, gosdrykkjaverksmiðja, skraddaraverkstæði, trésmíðaverkstæði, sláturhús, svínabú, reykingarofn, niðursuða, vindlaverksmiðja, brjóstsykurverksmiðja, veitinga- og biljarðstofa. Árið 1902 var verslunin með fimm verslunarhús í Hafnarstræti og eitt í Kolasundi. Þá voru þeir einnig með útibú og fiskverkun á Akranesi og skrifstofu og afgreiðslu í Kaupmannahöfn.

Thomsen Magasin var í virkri samkeppni og hugsaði upp ýmsar leiðir til að auglýsa sig. Meðal annars dreifði verslunin litríkum auglýsingum og vörulistum í svipuðum anda og stórverslanir í dag. Eins og gefur að skilja var vöruúrvalið hreint ævintýralegt og í auglýsingu frá versluninni má meðal annars sjá auglýst mikið úrval af sígarettum og vindlum, allskonar búsáhöldum og hverskyns bökunar- og nýlenduvörum.

 

Byggt á texta Sigríðar H. Jörundsdóttur 'Stórverslanir íí sókn' sem birtist í bókinni Evidence! árið 2000 og á vefnum http://euarchives.org/


Þetta efni er frá:
Borgarskjalasafni Reykjavíkur

 

Athugasemdir gesta


Skráðu athugasemd


Nafn:

Póstfang:
Athugasemdir:

Umsjón