Jóhann Svarfdælingur (einnig nefndur Jóhann risi) hét fullu nafni Jóhann Kristinn Pétursson og var stærsti Íslendingur sem sögur fara af. Við fæðingu þann 9. febrúar 1913 vó Jóhann 18 merkur og var hann þriðja barn foreldra sinna af níu systkinum. Jóhann var 2,34 metrar á hæð þegar hann mældist hæstur og vó þá 163 kg.
Jóhann flutti frá Íslandi árið 1935, ferðaðist víða um heim og vann meðal annars við að sýna sig í fjölleikahúsum í Norðurlöndunum. Jóhann festist í Kaupmannahöfn þegar seinni heimsstyrjöld dundi yfir og komst að lokum til Íslands árið 1945. Eftir að hafa ferðast um Ísland við að sýna kvikmyndir, flutti Jóhann til Bandaríkjanna árið 1948 og bjó þar til ársins 1982. Jóhann landaði nokkrum kvikmyndahlutverkum í Bandaríkjunum og lék meðal annars í kvikmynd sem skartaði Gary Busey og Jodie Foster. Þá kom hann fram í eigin persónu í heimildarmynd árið 1981 og þar var hann titlaður hæsti maður heims. Þegar Jóhann kom í síðasta sinn til Íslands, settist hann að á Dalvík og bjó þar til dauðadags. Jóhann lést 26. nóvember 1984, þá 71 árs að aldri.
Herbergi hefur verið tileinkað Jóhanni á Byggðasafninu Hvoli á Dalvík og hefur það meðal annars að geyma hans persónulegu muni.
Byggt á: Wikipedia
Framlag Vigfúsar Sigurgeirssonar (1900-1984) til íslenskrar menningarsögu er margþætt. Hann var einn fremsti ljósmyndari Íslendinga um miðbik 20. aldar og frumkvöðull í íslenskri kvikmyndagerð. Myndir hans prýddu heimssýninguna í New York 1939. Hann tók um árabil myndir af fólkinu í landinu við leik og störf og ferðaðist innanlands með tveimur fyrstu forsetum lýðveldisins.
Ljósmyndir Vigfúsar voru sýndar í Hamborg, New York, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Ljósmyndabók hans Ísland í myndum var fyrsta ljósmyndabók eftir Íslending og hann varð einnig fyrstur Íslendinga til að gefa út bók með ljósmyndum í lit. Íslandskvikmynd hans var sýnd á heimssýningunni í New York 1939, en kunnastar af kvikmyndum hans eru leiknu þjóðháttamyndirnar Í jöklanna skjóli og Í dagsins önn.
Byggt á: Þjóðminjasafn - Á döfinni
Eðvarð Sigurgeirsson (1907-1999) var yngri bróðir Vigfús Sigurgeirssonar. Hann lærði ljósmyndun hjá Vigfúsi bróður sínum, rak sína eigin ljósmyndastofu á Akureyri í um fimmtíu ár og er einn þekktasti ljósmyndari landsins. Eðvarð var einnig einn af brautryðjendum í íslenskri kvikmyndagerð og liggur eftir hann ómetanlegt safn kvikmynda. Heimildarkvikmynd um björgun áhafnar Geysis á Vatnajökli er líklega þekktust mynda Eðvarðs ásamt kvkmyndinni Á hreindýraslóðum, en einnig eru í safni hans merkar myndir úr flugsögu Íslands, heimildir um ýmsa menningar- og listviðburði ásamt ótölulegum fjölda ferðaþátta um óbyggðir landsins.
Byggt á: Mbl.is
Jóhann K. Pétursson (f. 1913 – d. 1984) og Vigfús Sigurgeirsson (f. 1900 - d. 1984) ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður hittust á ljósmyndastofu Eðvarðs Sigurgeirssonar á Akureyri og létu taka af sér ljósmynd. Myndin er tekin í kringum 1935.
Jóhann K. Pétursson, Ragnheiður Bjarnadóttir, ljósmyndari á Akureyri (1912- ), og Karl Schiöth, síðar flugstjóri (1932-2004), létu einnig taka af sér ljósmynd á ljósmyndastofu Eðvarð Sigurgeirssonar á Akureyri. Myndin er tekin í kringum 1935.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Þingeyinga