Aldarafmæli Akureyrarkaupstaðar fagnað


Aldarafmæli fagnað


Árið 1962 gekk í garð og hugmyndir og væntingar Akureyringa um framtíðina voru stærri í sniðum en nokkru sinni fyrr. Þetta kom glögglega í ljós þegar hafinn var undirbúningur að afmælinu mikla, sjálfu aldarafmæli Akureyrarkaupstaðar. Fegrunarfélagið hafði um árabil reynt að fá Akureyringa til að flagga á hátíðisdögum með ekki alltof góðum árangri. En nú skyldi haldin vikuhátíð, hvorki meira né minna, og var beinlínis til þess ætlast að húseigendur kæmu sér upp flaggstöngum og að þeir máluðu hús sín fyrir hátíðina. Sett var á laggirnar sérstök fimm manna afmælisnefnd undir forsæti bæjarstjórans, Magnúsar E. Guðjónssonar, og Hermann Stefánsson menntaskólakennari ráðinn sérstakur framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Ekkert skyldi til sparað. Afmælishátíðarnefndin lét framleiða ótal minjagripi, meðal annars barmnælur, borðfána og glasabakka, sem allir áttu það sameiginlegt að vera prýddir gamminum og kornbindinu, merkinu sem listamaðurinn Tryggvi Magnússon gerði árið 1930 og tileinkaði Akureyri. Líka voru útbúin bréfamerki og lögð sérstök áhersla á að selja þau í fyrirtæki bæjarins með tilmælum um að forstjórarnir límdu þau á öll bréf er færu frá fyrirtækjum þeirra. 

Sögusýning var sett upp í tíu kennslustofum í Gagnfræðaskólanum. Á 5. hæð í Amaró ætluðu 11 samvinnufyrirtæki bæjarins að sýna framleiðslu sína og á hæðinni fyrir ofan 17 einkafyrirtæki. Komið var upp skrautlýsingu í Lystigarðinum og andapollurinn var einnig upplýstur á kvöldin. Slökkviliðsstjóri bæjarins undirbjó mikla flugeldasýningu og skorað var á vinnuveitendur að gefa starfsfólki frí miðvikudaginn 29 ágúst " ... þannig að dagurinn geti orðið almennur frídagur í bænum", hljómaði hvatning afmælishátíðarnefndarinnar. Inni í Fjöru kepptust menn við að lagfæra húsið Kirkjuhvol og setja þar upp fyrstu sýningu Minjasafnsins á Akureyri sem átti að opna almenningi á sjálfan afmælisdaginn 29. ágúst. Svona var hamast í hverju horni til að gera afmælishátíðina sem eftirminnilegasta.

Svo rann upp sunnudagurinn 26. ágúst, fyrsti dagurinn í 100 ára afmælishátíð Akureyrarkaupstaðar. Fyrsta verkefnið var að opna sýningu á nálega 60 listaverkum eftir Ásgrím Jónsson sem listamaðurinn Kristinn G. Jóhannsson hafði sett upp í Oddeyrarskóla. Síðan var stormað inn á íþróttavöllinn við Hólabraut þar sem Lúðrasveit Akureyrar lék uppáklædd í nýjum einkennisbúningi sem var bæði ofinn og saumaður á Akureyri. Síðan steig Ármann Dalmannsson, formaður ÍBA, í ræðustól og afhenti bæjarbúum formlega hina myndarlegu íþróttavallarbyggingu sem var áhorfendastæði fyrir 600 manns hið ytra en geymdi í belg sínum herbergi, stór og smá, sturtur og búningsklefa. Þetta voru tímamót í íþróttasögu Akureyrar sem bæjarbúar áttu um aldur og ævi að tengja afmælinu mikla. 

Varla hafði Ármann lokið máli sínu þegar úrvalslið Reykjavíkur og Akureyrar í knattspyrnu hlupu inn á völlinn sem var rennandi blautur eftir rigningu næturinnar. Þegar leiknum lauk höfðu norðanmenn gert þrjú mörk gegn einu Reykvíkinga. Þetta var sannarlega góð hátíðarbyrjun. Reykvíkingar lagðir í vinsælustu íþrótt landsins. En dagskráin framundan var sannarlega fjölbreytt. 

Vitaskuld var mest um að vera hinn eiginlega afmælisdag, 29. ágúst. Ríkinu hafði verið lokað og ekkert áfengi var veitt í boði bæjarins. Þetta féll í misjafnan jarðveg. Templarar og kvenfélög fögnuðu en Ólafur Thors forsætisráðherra hnippti í flokksbróður sinn, Jónas Rafnar, alþingismann og fulltrúa í afmælishátíðarnefndinni, og kvartaði: "Er það nú veisla, Jónas. Svo læturðu mann koma sunnan úr Reykjavík til þess að drekka súrt öl hér norður á Akureyri. Er það nú veisla!"

Mönnum bar engu að síður saman um að hátíðahöldin vegna 100 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar hefðu farið vel fram. það var sama úr hvaða flokki var talað. "Afmælishátíðin vel skipulögð", sagði Íslendingur og kvaðst hafa það eftir gestum. Verkamaðurinn sagði hátíðahöldin "til vegsauka og gleði" - "í langflestum tilfellum". "Eining bæjarbúa lofsverð", sagði í Degi, og Alþýðumaðurinn tók undir: "Samhugur bæjarbúa um hátíðarhöldin sérstaklega ánægjulegur".

 

Útdr. úr óútk. Sögu Akureyrar 5. bindi eftir Jón Hjaltason, sagnfræðing.

SUNNUDAGUR 26. ÁGÚST:

Kl. 14.00: Opnuð sýning í Oddeyrarskólanum á málverkum úr listasafni Ásgríms Jónssonar. Sýningin verður opin alla hátíðadagana frá kl. 13.00 til 22.00. Aðgangur kr. 10.00 fyrir fullorðna, ókeypis fyrir börn.

Kl. 16.00: Á Íþróttavellinum:

a) Lúðrasveit Akureyrar leikur undir stjórn Jakobs Tryggvasonar.

b) Ávarp. Formaður Íþróttabandalags Akureyrar, Ármann Dalmannsson. Íþróttavallarbyggingin tekin í notkun.

c) Bæjarkeppni í knattspyrnu: Reykjavík - Akureyri.


ÞRIÐJUDAGUR 28. ÁGÚST:

Kl. 18.00: Opnun Iðnsýningar í Amaro-húsinu, Hafnarstræti 99. Þar verða sýndar framleiðsluvörur iðnfyrirtækja á Akureyri. Sýningin verður opin daglega kl. 10.00 til 22.00. Veitingasala á 6. hæð og svölum. Sýningunni lýkur sunnudaginn 9. september.
Aðgangur kr. 15.00 fyrir fullorðna.


MIÐVIKUDAGURINN 29. ÁGÚST: - AÐALHÁTÍÐ

Kl. 08.00: Fánar dregnir að hún.

Kl. 09.15: Vígsla Elliheimilis Akureyrar. Heimilið verður almenningi til sýnis frá kl. 13.00 til 19.00 og laugardaginn 1. september á sama tíma.

Kl. 10.30: Hátíðamessa í Akureyrarkirkju. Sr. Pétur Sigurgeirsson predikar. Sr. Birgir Snæbjörnsson þjónar fyrir altari.

Kl. 13.00: Lúðrasveit Akureyrar leikur á Ráðhústorgi.

Kl. 13.30: Hátíðin sett. Jón G. Sólnes forseti bæjarstjórnar.

Kl. 13.35: Karlakórar bæjarins syngja: "Sigling inn Eyjafjörð". Árni Ingimundarson stjórnar.

Kl. 13.40: Skrúðganga frá Ráðhústorgi að Íþróttavellinum.

Kl. 14.00: Karlakórar bæjarins syngja: "Heil og blessuð Akureyri". Áskell Jónsson stjórnar.

Kl. 14.05: Hátíðarræða: Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi.

Kl. 14.30: Karlakór Akureyrar og blandaður kór undir stjórn Áskels Jónssonar. Undirleikari Guðmundur Jóhannsson.

Kl. 14.45: Upplestur: Guðmundur Frímann skáld.

Kl. 14.55: Ávörp gesta:
Forseti Íslands.
Forsætisráðherra.
Fulltrúar vinabæja.

Kl. 16.00: Opnun Sögusýningar í Gagnfræðaskólanum við Laugargötu. Sýningin verður opin almenningi frá kl. 17.30 og síðan daglega frá kl. 14.00 til 22.00 til sunnudagsins 9. september að kvöldi. Aðgangur ókeypis.

Kl. 17.45: Hátíðarfundur í bæjarstjórn Akureyrar í Samkomuhúsinu, Hafnarstræti 57. Öllum heimill aðgangur meðan húsrúm leyfir.

Kl. 20.30: ÚTIHÁTÍÐAHÖLD Á RÁÐHÚSTORGI:
Lúðrasveit Akureyrar leikur.
Karlakórinn Geysir syngur. Söngstj. Árni Ingimundarson.
Minni Akureyrar. Kvæði. Stefán Ág. Kristjánsson.
Leikþáttur, "Frá horfinni öld", e. Einar Kristjánsson. Leikstjóri Guðmundur Gunnarsson.
Danssýning barna. Stjórnandi frú Margrét Rögnvaldsd.
Tvísöngur: Ingibjörg Steingrímsdóttir og Jóhann Konráðsson. Undirleikari ungfrú Guðrún Kristinsdóttir.
Dansar 1862 og 1962. Sýning.
Smárakvartettinn á Akureyri syngur.
Gamanvísur
Almennur dans á götum bæjarins.
Flugeldasýning kl. 24.00.
Dagskrárlok eftir aðstæðum.


FIMMTUDAGUR 30. ÁGÚST:

Kl. 17.30: Samsöngur í Nýja-Bíó: Karlakórinn Muntra Musikanter frá Helsingfors. Erik Bergmann stjórnar. Aðg. kr. 50.00.

Kl. 21.30: Á Ráðhústorgi: Lúðrasveit Akureyrar leikur, Muntra Musikanter og karlakórar bæjarins skemmta, o.fl.

Kl. 22.30: Blysför frá "gömlu Akureyri", eftir Hafnarstræti að Ráðhústorgi. Sveit 100 hestamanna úr "Létti".
Dagskrárlok ákveðin síðar.


LAUGARDAGUR 1. SEPTEMBER:

Kl. 10.00: Róðrarmót Íslands á "Pollinum".

Kl. 13.00: Unglingameistaramót Íslands í frjálsíþróttum á Íþróttavellinum. Bæjakeppni í handknattleik kvenna. Hafnarfjörður - Akureyri.

Kl. 15.30: Sundmeistaramót Norðurlands í Sundlaug bæjarins.


SUNNUDAGUR 2. SEPTEMBER:

Kl. 10.30: Róðrarmót Íslands (framhald).

Kl. 13.30: Unglingameistaramót Íslands (framhald).

Kl. 14.30: Sundmeistaramót Norðurlands (framhald).

Kl. 16.00: BARNASKEMMTUN Á RÁÐHÚSTORGI:
Lúðrasveit Akureyrar leikur.
Barnakór syngur. Stjórnandi Birgir Helgason.
Upplestur. Hjörtur Gíslason rithöfundur.
Einleikur á blokkflautu. Kristján Sigurðsson. Undirleikari: Konráð Erlendsson.
Leikþáttur, "úr Kardimommubænum". Leikstjóri Ragnhildur Steingrímsdóttir.
Söngur með gítarundirleik.
Hringdansar. Stjórnandi Margrét Rögnvaldsdóttir.
Einleikur á harmoniku. Sævar Benediktsson.

Kl. 17.30: Hátíðarslit.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafninu á Akureyri


 

Athugasemdir gesta


Skráðu athugasemd


Nafn:

Póstfang:
Athugasemdir:

Umsjón