Turnbygging á Hólum - Minnisvarði um Jón Arason


Sumir, sem leggja leið sína heim að Hólum í Hjaltadal, hafa á orði að sérkennilegt sé að ekki sé þar minnisvarði um Jón Arason, síðasta kaþólska biskupinn á staðnum. Þeim hefur þá sést yfir helsta kennileiti Hólastaðar, kirkjuturninn, sem gnæfir yfir byggðina, en hann var einmitt reistur til minningar um Jón og syni hans.

Á héraðsfundi Skagafjarðarprófastdæmis þann 14. júní 1938 bar Árni Sveinsson, safnaðarfulltrúi Hólasóknar, fram tillögu um að skipuð yrði 7 manna nefnd til að reisa minnisvarða á 400 ára dánarafmæli Jóns Arasonar. Nefnd var kosinn sem starfaði að fjársöfnun til minnisvarðans og þann 25. mars 1944 lögðu þáverandi þingmenn Skagfirðinga, þeir Sigurður Þórðarson og Jón Sigurðsson, fyrir Hólanefnd frumdrætti að turni, og áttu hugmyndina að honum þeir Sigurður arkitekt Guðmundsson og Sigurður Sigurðsson sýslumaður Skagfirðinga. Hugmyndin var því sú að ljúka byggingu kirkjunnar, tæplega 200 árum eftir að hún var reist, með stökum turni, sem jafnframt væri minnismerki um síðasta kaþólska biskupinn á Hólum. Raunar hafði áður verið rætt um hversu snautleg kirkjan væri svona turnlaus og fram höfðu komið hugmyndir um úrbætur þar á.  

 

Sigurður Guðmundsson teiknaði turninn endurgjaldslaust og yfirumsjón með byggingunni hafði Hróbjartur Jónasson múrarameistari að Hamri í Hegranesi. Turninn var mikið mannvirki, 27 metrar á hæð og er sannkölluð staðarprýði. Í turninum er lítil kapella og grafhýsi, en þar er kista sem talin er vera kista Jóns Arasonar og sona hans, Björns og Ara. Turninn var vígður 13. ágúst 1950 af Sigurgeiri Sigurðssyni þáverandi biskup Íslands og þá afhenti Hólanefnd kirkjunni turninn til eignar á fjölmennri minningarhátíð. Sumarið 1957 vann Erró (þá Ferró) að mósaíkmynd af Jóni Arasyni fyrir kirkjuna á Hólum í Hjaltadal, sem er í stúkuhorni austur af turninum.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Skagfirðinga


 

Athugasemdir gesta


Skráðu athugasemd


Nafn:

Póstfang:
Athugasemdir:

Umsjón