Minnisvarði um Stephan G. Stephansson var reistur á Arnarstapa í Skagafirði árið 1953, í tilefni af aldarafmælis skáldsins. Árið 1945 reifaði Eyþór Stefánsson tónskáld hugmyndina um byggingu minnisvarðans á skemmtun í Litla-Garði í Hegranesi. Í kjölfarið var stofnuð nefnd sem vann að því að þessi hugmynd yrði að veruleika. Nefndarmenn voru Guðjón Ingimundarson, formaður UMSS, Óskar Magnússon, bóndi í Brekku og Eyþór Stefánsson. Ríkarður Jónsson myndhöggvari var fengin til að gera hugmyndir um minnisvarðan og hannaði hann og gerði lágmyndir á varðann. Staðsetning var ákveðin á Arnastapa, skammt frá fæðingarstað skáldsins og í alfaraleið. Hróbjartur Jónasson múrarameistari á Hamri hafði yfirumsjón með byggingu varðans og hófust framkvæmdir 23. júní 1953. Þann 19. júlí 1953 var minnisvarðinn afhjúpaður að viðstöddu miklu fjölmenni í góðu veðri.
Arnarstapi er fallegur útsýnisstaður sem fer fram hjá fæstum sem keyra um Skagafjörð. Við minnisvarðann hefur verið gerður áningarstaður og upplýsingaskilti um leiðir og ferðaþjónustu í Skagafirði og er staðurinn því vinsæll áningarstaður fyrir ferðamenn.
Stephan G. Stephansson fæddist 3. október 1853 á Kirkjuhóli í Skagafirði. Hann bjó
í Skagafirði fram til 15 ára aldurs en flutti þá í Þingeyjarsýslu. Árið 1873 flutti
hann, ásamt foreldrum sínum og systur, til Vesturheims. Í Vesturheimi starfaði hann
við ýmis störf og orti þess á milli kvæði. Fyrsta bókin eftir hann Úti á víðavangi
kom út árið 1894. Stephan lést þann 9. ágúst 1927 í Alberta í Kanada.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Skagfirðinga