Skeyti frá sendiherranum í Kaupmannahöfn til forsætisráðherrans.
Mynd 1. Skeyti frá sendiherranum í Kaupmannahöfn til forsætisráðherrans.
Mynd 2. Skeyti frá forsætisráðherranum til sendiherrans í Kaupmannahöfn.
Á fjórða áratugnum var efnahags- og atvinnuástand mjög erfitt á Íslandi. Einstök ríki brugðust við kreppunni með margs konar aðgerðum í peningamálum, og settu gjarnan ýmis konar innflutningshöft til að styrkja eigin iðnað. Þetta gerðu Íslendingar m.a. með því að efla iðnframleiðslu, settu á stofn fata- og skóverksmiðjur og efldu úrvinnslu landbúnaðarafurða m.a. með því að byggja upp mjólkurbú vítt og breytt um landið. Einnig efldist sjávarútvegur á þessum árum. Slíkar ráðstafanir urðu mjög til þess að styrkja efnahagslífið. Sumt sem reynt var heppnaðist þó ekki eins vel, eins og innflutningur loðdýra (minksins) og kynbótahrúta (mæðiveikin). Hér horfðu menn þó mest til þess að byggja á innlendum verðmætum.
En þá eins og nú var mikil óvissa um gengið, bæði á Íslandi og nágrannalöndunum. Hér má sjá skeyti sem forsætisráðherrann, sem þá var Tryggvi Þórhallsson, sendi íslenska sendiherranum í Kaupmannahöfn (Islandsgesandt), sem var Sveinn Björnsson síðar forseti Íslands og spyrst fyrir um gengi dönsku krónunnar sem er skv. lausafréttum komin niður fyrir gengi sterlingspundsins. Forsætisráðherrann spyr hvað valdi og langar að vita ef unnt er „hvað sé framundan“ og er ekki eini maðurinn til að vera uggandi yfir hvað framtíðin beri í skauti sér.
Skeytið er sent 19. nóvember, kl. 14.48 og stílað á Krabbe (þ.e. Jón Krabbe) í Rosenvængetsalle 34. Það er móttekið sama dag eins og stimplað er á eyðublaðið. Skeytið hefur verið innsiglað eða límt saman með rauðum miða sem á stendur Statstelegrafen.
Þetta efni er frá:
Þjóðskjalasafni Íslands