Guðmundur Kristjánsson


Þann 26. apríl 1894, urðu tímamót hjá Guðmundi Kristjánssyni, 32 ára vinnumanni hjá sýslumanninum í Arnarholti í Stafholtstungum en þann dag var hann leystur undan vistarskyldunni og fékk leyfisbréf til lausamennsku.


Lausamennskubréf. Einkaskjalasafn Guðmundar Kristjánssonar (EE186)



Sigurður Þórðarson
sýslumaður í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu
kunngjörir eftir beiðni Guðmundar Kristjánssonar, vinnumanns í Arnarholti, sem er 32 ára að aldri, er hann hérmeð, samkvæmt lögum nr. 3 frá 2. febr. þ.á. leystur undan vistarskyldunni og eru réttindi þau sem honum þar með eru veitt, samfara þær skyldur, er til eru teknar í 3. og 4. gr. nefndra laga og í 6., 7. og 9. gr. tilskipunar frá 26. maí 1863.
Skrifstofu Mýra- og Borgarfjarðarsýslu 26. apríl 1894.

Til staðfestu er nafn mitt og embættisinnsigli.
Sigurður Þórðarson

Gjald
2 - tvær - kr.
Borgað. SÞ
Leyfisbrjef til lausamennsku
fyrir Guðmund Kristjánsson í Arnarholti

Lausamennska hafði verið bönnuð um langt árabil eða þar til árið 1863, þá hafði hún verið leyfð en með ströngum skilyrðum. En sama ár og Guðmundur fékk leyfisbréfið voru í kjölfar vaxandi sjósóknar, gefin út ný lög sem gerðu búlausu fólki hægara um vik að vera í lausamennsku en áður.

Segja má að eftir að Guðmundur Kristjánsson (1862-1934) kaupir leyfisbréfið hefjist hjá honum nýtt líf. Eftir að hafa verið í vinnumennsku í mörg ár gerist hann póstur, fyrst á leið milli Akraness og Stykkishólms og síðar milli Borgarness og Búðardals, og starfar við það í 25 ár (1895-1920). Þótti Guðmundur vera þrekmenni mikið og duglegur ferðamaður.


Árið 1896 fer Guðmundur að búa með konu sinni, Guðbjörgu Ólafsdóttur (1871-1952) fyrst í Hlöðutúni í Stafholtstungum, síðan á Hamrendum í sömu sveit. Þau eru síðan eitt ár á Brekku í Norðurárdal og síðan á Sleggjulæk í Stafholtstungum til dauðadags. Eflaust hafa bústörfin verið mjög á hendi Guðbjargar meðan Guðmundur var í póstferðum. Guðmundur eignast 8 börn með konu sinni og eina dóttur utan hjónabands og eru komnir frá þeim margir afkomendur. Þegar Guðmundur og Guðbjörg bjuggu á Hamraendum var þar nokkurskonar ferðaþjónusta, m.a. viðkomustaður á leið til læknis í Stafholtsey og þar voru einnig haldnir hreppsfundir áður en skólahúsið í Hlöðutúni var byggt.

Meðfylgjandi mynd sýnir Guðmund ásamt heimilisfólki sínu á Hamraendum 1910. Fremri röð frá vinstri: Steinunn, Guðrún og Ingibjörg Guðmundsdætur, Guðmundur bóndi heldur á Gunnhildi Guðmundsdóttur, Kristján Guðmundsson, Guðbjörg Ólafsdóttir húsfreyja, heldur á Ólafínu Guðlaugu Guðmundsdóttur, Gísli vinnupiltur. Efri röð frá hægri: Jón Sveinsson Grindavík veiðimaður, Gunnhildur Þorvaldsdóttir Reykjavík kaupakona, Ólafur Ólafsson vélsmiður Akranesi kaupamaður, Ingibjörg Ólafsdóttir kaupakona, Þórdís Jóhannesdóttir kaupakona, Gróa Ófeigsdóttir Reykjavík kaupakona. Myndina tók danskur landmælingamaður, Cramer, sem dvaldi á Hamraendum í sex vikur.


Guðmundur ásamt heimilisfólki sínu á Hamraendum 1910


Heimildir:
Borgfirzkar æviskrár. 1973. 3. bindi. Útgefandi: Sögufélag Borgarfjarðar.Bls. 361-362. Kristján Guðmundsson. 1994. Skrifleg greinargerð með afhendingu leyfisbréfsins ásamt ljósmyndum á Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar þann 2. ágúst.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar


 

Athugasemdir gesta


Skráðu athugasemd


Nafn:

Póstfang:
Athugasemdir:

Umsjón