Keflavíkurganga 1960


Úr dagbókum Ríkislögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli, 19. júní 1960.


Eitt mesta hitamál eftirstríðsáranna var herstöð Bandaríkjamanna á Miðnesheiði og aðildin að NATO. Ýmis samtök, mis langlíf, voru stofnuð til að andæfa hersetunni sem stóðu fyrir margs konar samkomum og aðgerðum. Vorið 1960 var boðað til göngu frá Keflavík til Reykjavíkur til að andæfa veru bandaríska herliðsins á Íslandi.

Þessi aðgerð mæltist misjafnlega fyrir eins og sjá má á þessari mynd úr skýrslu lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli 19. júní 1960. Blöðin söguð frá göngunni og taldi Þjóðviljinn þar hafa verið múg og margmenni en Morgunblaðið fámenni.

Í framhaldi af þessari göngu voru stofnuð Samtök hernámsandstæðinga á Þingvallafundi um haustið og störfuðu af mismiklum krafti næstu árin og stóðu m.a. fyrir fleiri Keflavíkurgöngum. Einn fjölmennasta gangan var sumarið 1975 þegar landhelgisdeilan við Breta stóð sem hæst.

Keflavíkurgöngur fóru þannig fram að þátttakendur söfnuðust saman við hlið herstöðvarinnar að morgni, héldu stuttan fund en gengu síðan áleiðis til Reykjavík eftir Keflavíkurveginum. Leiðin er um 50 km. Áfangar voru að jafnaði utan í Vogastapa, við Kúagerði, Straumsvík og Kópavogi og síðan lauk göngunum með fjöldafundi á Lækjartorgi.

Bandaríska herliðið hefur að mestu yfirgefið stöðvar sínar á Keflavíkurflugvelli en heldur þó ákveðnum ítökum þar og rekur sömuleiðis ratsjárstöð í Grindavík. Samtökin eru enn við lýði en nefnast nú Samtök hernaðarandstæðinga og hafa þau í seinni tíð beitt sér fyrir almennri friðarbaráttu, hlutleysi Íslands og andspyrnu við veru Íslands í NATO.


Þetta efni er frá:
Þjóðskjalasafni Íslands


 

Athugasemdir gesta


Skráðu athugasemd


Nafn:

Póstfang:
Athugasemdir:

Umsjón