Undanfarnar vikur hafa Akureyringar haft góða gesti á Pollinum, en svo nefnist innsti hluti Eyjafjarðar, innan við Oddeyrartanga. Gestirnir eru hvalir, aðallega andarnefjur, en einnig hafa þar sést hnúfubakar. Mjög mikil ánægja er meðal bæjarbúa að hafa þessa gesti og ferðamenn fá ókeypis hvalaskoðunarferð rétt við miðbæ Akureyrar. Ekki hefur þó alltaf verið tekið jafnvel á móti slíkum gestum á Akureyri, eins og eftirfarandi frásögn Jakobs V. Havsteen, kaupmanns og etazráðs frá árinu 1882 sýnir.
Þann 13. þessa mánaðar fór jeg undirskrifaður á hvalaveiðar með 8 menn á báti. Strax um morguninn sama dag hitti jeg hval hjer á höfninni, og setti jeg þegar í hann með handafli járnlensu með 5 álna löngu trjeskapti, þarnæst skaut jeg í hann 3 járnum, nefnil. 1 lensu 1 ½ al [in] á lengd (öll úr járni) og 2 kúlum hjerumbil 1 pund að þýngd, einnig úr járni. Auðsjáanlegt var strax að hvalurinn lamaðist mikið af skotum þessum, og leitaðist lítið við að komast út höfnina. Jeg sjálfur og menn þeir er með mjer voru, skiptumst til að vaka yfir hvalnum á nóttunni, til þess að við skyldum ekki missa af honum, og heppnaðist þetta okkur vel. Við fórum stöðugt í 5 sólarhringa út, til að elta hvalinn, og reyna að drepa hann, og skaut jeg á hann yfir 20 járnum smærri og stærri, þangað til sunnudagskveldið hinn 18. þ.m. er jeg lagði af stað í síðasta skipti, með sömu 8 menn á bátnum, þar við sáum hvalinn kl. 7 í ísnum utan við Oddeyrina. Klukkan 8-9 um kveldið komumst við að honum, og sá jeg strax að hann var mjög sár og dasaður; við hittum hann hjerumbil 150 - 200 faðma undan landi út af Oddeyrinni, og þar fleygði jeg í hann skutli með færi við, rjett á eftir kl. 9 skaut jeg úr hvalabyssu minni 2 álna járnskutli, og hafði jeg í honum 70 faðma langa trássu nýja. Skutullinn fór á kaf inní hol á hvalnum svo hjerumbil ½ alin af honum, stóð inní inniflin. Hvalurinn kenndi undireins svo mikils sársauka við þetta banaskot hans, að hann tók á harða rás, og þaut þvert yfir um fjörðinn, rakst hann opt í hafís jaka sem fyrir honum urðu á leiðinni, og það svo hart að hartnær skíðastóllinn losnaði í hausnum, hann dró ýmist bátinn sem við vorum á, eftir sjer, ellegar þá dufl þau sem við höfðum fest við skutulfestarnar, sem við fleygðum út þegar ísjakar urðu í veginum. Við sáum að hvalurinn linaðist alltaf meir og meir, og gátum við vel fylgt honum eptir þó við opt þyrftum að krækja fyrir ísjaka, en hvalurinn fór alltaf sama beina strikið, samt með hægri för seinast, þangað til hann kenndi grunns á fjörunni í Sigluvíkur landi. Þar lagði jeg hvalinn með lagjárni, og brá honum lítið við fyrr en undir hið síðasta að hann tók dauðateigjurnar, Þá barði hann sjóinn ákaflega með sporðinum nokkur augnablik.
Bóndinn í Sigluvík kom svo að, og gerði hann morguninn eftir tilkall til parts úr hval þessum, og áleit hann sem rekinn á land, eptir Jóns bókar lögum. Jeg neitaði því, þar eð jeg get alls ekki álitið hvalinn sem rekinn í land og hvorki jeg nje hásetar mínir stigu okkar fæti á Sigluvíkur landi, aukheldur að við settum svo mikið sem snærisstúf í land til þess að festa hvalinn sem ekki heldur þurfti við þar eð hann var dauður en samt eptirljet jeg þessari ágengu mannskepnu handa landeigendum, ¼ part af hvalnum að hausnum undanteknum, var þetta samningur okkar á milli, og þótti mjer hann full dýrkeyptur, og ílla varinn í þann stað. Þarnæst mætti annar bóndi, oddviti Svalbarðsstrandarhrepps, og heimtaði fátækrahlut 1/5 úr öllum hvalnum, jeg neitaði því að svo stöddu, en sagðist skulu halda partinum inni hjá mjer fyrst um sinn, þangað til háyfirvaldið, eða dómstólarnir skæru úr hvert mjer bæri að borga þetta eða ekki, eptir að jeg og hásetar mínir höfðum lagt á okkur vökur og strangt erfiði í 6 sólarhringa til að vinna þennan hval, sem aðrir hjer höfðu ekki verkfæri til að vinna á, og öllum mishepnast sem áður hafa reynt það hjer.
Það er hörmulegt að landslögin skuli vera svo óljós og óuppörfandi fyrir þá sem stunda veiði þessa, að mönnum skuli því nær vera bannað að leita sjer og öðrum bjargar á harðindis árum, með veiði þessari, nema því að eins að neyðast til að gefa mönnum sem alls ekkert leggja í sölurnar, og ekki bíða eins eyris óhag við veiðina, svo og svo stórann part af henni, því það virðist sannarlega full ástæða til að jeg og menn mínir eigum þennan hval óskertan, með fullum rjetti, og vil jeg hjermeð lotningarfylst biðja hið háa amt að leiðbeina mjer, hvað jeg eigi að gjöra til þess að geta fengið vissu um hvert jeg eigi að skipta 1/5 úr hval þessum til fátækrasjóðs eins í Svalbarðsstrandarhrepp, eða til fátækrasjóðs Akureyrar kaupstaðar, þar jeg og allir hásetar mínir eigum heima á Oddeyri í Akureyrar kaupstað, eða hvert lögin heimili að þessi 1/5 partur verði sviptur okkur að öllu eða nokkru leyti, þar eð jeg álít að jeg hafi unnið jafnmikið að hvalnum hina fimm sólarhringana, einsog hið síðasta sunnudagskveld, þegar jeg drap hann til fulls kl. 9-10.
Oddeyri, 21. júní 1882
J.V. Havsteen Að ofanskrifað sje allt rjett hermt af formanni okkar við hvalaveiðarnar,
verslunarstjóra J.V. Havsteen, það staðfestum við hjermeð
S.Sigurðsson, Snorri Jónsson, Jón Halldórsson, H. Þorláksson, G. Pálsson, Eðvald
Jónsson, Jón Jónsson, Oddur Einarsson
"Steipi reiður hún er góð og helgust allra hvala sem í sjónum eru"
Handrit í Héraðsskjalasafninu á Akureyri.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafninu á Akureyri