Orðunum lesbía og hommi hafnað


Í fróðlegri grein Þorvalds Kristinssonar varpar hann upp svipmyndum af sögu samkynhneigðra á Íslandi. Hann vitnar meðal annars í ögrandi tímaritsgrein Halldórs Laxness frá árinu 1925, sem skáldið kallaði "Af menningarástandi". Þar segir meðal annars:

Og þar sem menningin átti ekki neina fulltrúa á Íslandi frammeftir síðustu öld, fyrir utan hafnaríslendinga, en nokkra flakkara uppum sveitir og latínuskólaræfilinn á hrakhólum . . . þá hefur Reykjavík í skjótri svipan eignast hvaðeina sem heimsborg hentar, ekki aðeins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig fútboll og hómósexúalisma.

Samkynhneigð var fyrst nefnd á prenti á Íslandi árið 1910 í mannkynsögu þar sem fjallað er um Forn-Grikki og höfundur talar næstum feimnislega um ástir karla til ungra pilta. Í grein um erfðafræði og kynbætur í Skírni, virtasta tímariti landsins, árið 1922 kemur orðið kynvilla í fyrsta sinn fyrir á prenti, myndað á sama hátt og orðið trúvilla. Þörfin til að þýða erlend orð og hugtök var og er ennþá grundvallareinkenni íslenskrar sjálfstæðisvitundar. Sú niðurlægingartækni tungumálsins sem hér birtist lýsir vel þeim viðhorfum sem mótuðu stefnuna í siðferðilegum og menningarlegum efnum. Orðið kynvilla lifði í daglegu máli allt fram undir 1990, en er nú nánast horfið úr daglegu máli fyrir atbeina homma og lesbía þótt hún þjóni ennþá mikilvægu hlutverki í hatursáróðri kristinna sértrúarhópa.


Bréf frá Andrési Björnssyni, útvarpsstjóra, þar sem hann gerir grein fyrir afstöðu Ríkisútvarpsins til notkunar á hugtökunum "lesbía" og "hommi" í auglýsingum Samtakanna '78.


Vorið 1978 stofnuðu samkynhneigðir með sér félagið Samtökin '78. Stofnfélagar voru 20 talsins en félagið óx hratt og stóð fyrir fundum og margvíslegri fræðslu- og félagsstarfsemi. Þessi óvænti sýnileiki kallaði á viðbrögð og fordómar hins litla og einsleita samfélag komu berlega í ljós. Vitnisburðir um ofsóknir í skólum og á vinnustöðum bárust til Samtakanna '78 og dæmi um höfnun í fjölskyldum, ofbeldi á almannafæri urðu staðreynd sem margir höfðu vitað af en legið í láginni til þessa.

Fordómarnir birtust hvað skýrast í tungumálinu. Það var stór þáttur í baráttu fyrstu áranna að neita að lifa við kúgandi afl íslenskunnar og þann fjandsamlega orðaforða sem tengdist tilveru samkynhneigðra. Þeir áttu sér eigin orð, lesbía og hommi, sem voru þeim eiginleg og töm, og það var krafa þeirra að vera kölluð slik. Um kynhneigðina áttu þau orðið samkynhneigð. Félagið unga reyndi hvað það gat til þess að fá blaðamenn og ritstjóra til að taka upp þessi orð en hafna kynvillu og kynvillingum. Árangurinn lét á sér standa.

Frægt er dæmi útvarpsstjóra ríkisútvarpsins, sem hafði einkarétt á ljósvakamiðlun, þegar hann hafnaði birtingu neðangreindrar auglýsingar Samtakanna '78, í mars 1981



og gaf þau fyrirmæli til fréttastofu og auglýsingadeildar um að ekki mætti nota orðin lesbía og hommi. Það væri skoðun málfarsráðunautar stofnunarinnar að orðin hommi og lesbía væru erlendar slettur, tökuorð og samrýmdust ekki þeirri hreinu tungu sem ríkisútvarpinu bæri að útbreiða. Í bréfi útvarpsstjóra til Samtakanna '78 kom meðal annars fram að auglýsingum "skuli hafna, ef þær brjóti í bága við almennan smekk eða velsæmi. Á þeim grundvelli er hafnað orðunum "lesbía" og "hommi" í auglýsingu yðar."

Ríkisútvarpið var ekki eitt um afstöðu sína, DV meinaði Samtökunum '78 að nota orðin lesbía og hommi í auglýsingum sínum. Auglýsingadeildir fjölmiðla tóku hins vegar fram að þær hefðu ekkert á móti orðinu "kynvillingar" í auglýsingum sínum. Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri staðfesti afstöðu Ríkisútvarpsins til auglýsinga frá Samtökunum '78 í bréfi dags. 28. mars 1985.

 

Texti: Þorvaldur Kristinsson, Að hasla sér völl, 27. febrúar 2003
www.samtokin78.is/?PageID=30&NewsID=1827
og textar fyrir sýningu á Borgarskjalasafni. 


Þetta efni er frá:
Borgarskjalasafni Reykjavíkur

 

Athugasemdir gesta


Skráðu athugasemd


Nafn:

Póstfang:
Athugasemdir:

Umsjón