Stofnun Framfarafélagsins Kópavogs


Prentuð lög Framfarafélagsins Kópavogs mars/apríl 1949. Stærð frumrits 23,7 × 12,8 cm. Hskjs. Kóp. 4/2005 AB/1, 6.


Mynd 1. Prentuð lög Framfarafélagsins Kópavogs - forsíða

Mynd 2. Prentuð lög Framfarafélagsins Kópavogs - baksíða


Framfarafélagið Kópavogur var stofnað hinn 13. maí 1945. Félagið varð til þess að sveitarfélagið Kópavogshreppur var stofnað, en það varð upphafið að Kópavogsbæ. Fjöldi framfarafélaga var stofnaður á síðasta fjórðungi 19. aldar og á 20. öld, bæði fyrir og eftir stofnun Framfarafélagsins Kópavogs. Vafalítið má telja framfarafélög, líkt og búnaðarfélög, bindindisfélög og ungmennafélög, tengd og undir áhrifum af anda sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Framfarafélagið Kópavogur er stofnað stuttu eftir lýðveldisstofnunina og hægt er að líta svo á að það hafi með uppbyggingu Kópavogs snúist gegn afturhaldssamri byggðastefnu. Húsnæðisþörf í Reykjavík var hvergi nærri fullnægt og íbúar Kópavogs vildu ekki að Kópavogur yrði fátækrahverfi á borð við þau úthverfi Reykjavíkur sem þá höfðu risið. Stofnfundur Framfarafélagsins Kópavogs var haldinn í breskum hermannaskála (eða "bragga") í herskálabyggð við Fífuhvamm sem kallaðist Hilton Camp. Herskálinn sem hafði verið notaður sem samkomuhús hermanna var orðinn eign Antons Ísakssonar sem lánaði hann til fundarhaldsins.

Þetta menningar- og hagsmunafélag íbúa Kópavogs sem stóð þrisvar sinnum fyrir framboði í sveitarstjórnarkosningum (1946, 1948 og 1950) hafði í félagslögum sínum að það léti stjórnmál afskiptalaus og umræður um stjórnmál væru bannaðar á fundum félagsins. Með þessu mun átt við stjórnmál á landsvísu eða flokkastjórnmál. Almennir fundir Framfarafélagsins virðast hafa lagst af í deilunum um það hvort Kópavogshreppur ætti að fá kaupstaðarréttindi eða ekki. Með því héldu flokkastjórnmál innreið sína í Kópavog. Félagið lifði þó allt til þess að síðasti formaður þess, Sveinn A. Sæmundsson blikksmiður lést árið 1997, en félagið átti aðild að Félagsheimili Kópavogs og virðist það hafa verið það eina sem félagið hafði afskipti af síðustu áratugina. Skjalasafn Framfarafélagsins Kópavogs er varðveitt í Héraðsskjalasafni Kópavogs, nánari grein er gerð fyrir félaginu og skjalasafni þess í Ársriti Héraðsskjalasafns Kópavogs 2006-2007 sem nýlega er komið út. Þar eru einnig birtar fundargerðabækur félagsins.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Kópavogs


 

Athugasemdir gesta


Skráðu athugasemd


Nafn:

Póstfang:
Athugasemdir:

Umsjón