Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri eru varðveittar fuglaspár Þorsteins Þorsteinssonar aviologs, frá árunum 1995 til 2001. Þorsteinn gerði vikulegar spár og fór venjulega á föstudögum og leit eftir fuglum og túlkaði það sem þeir sögðu um veðurfar komandi viku. Einnig fann hann ljóð við hæfi og kom þessu til Gísla Jónssonar, menntaskólakennara, sem prentaði upp og myndskreytti1.
Spá Þ.Þ. laugard. 13. nóv. '99
Brictíusmessa
Fljúgðu, litli vinur, það fækkar nú um skjól,
frostin eru komin og lækkar nú sól,
þar sem litla vaggan þín var í mosató,
verður bráðum alhvítt af náköldum snjó.
(Guðmundur Guðmundsson)
Á athugunardegi flugu stórir máfar mjög hátt í lofti. Það gæti því orðið nokkuð töstugt veður um tíma í vikunni, þó inn á milli verði úrfellalaust með nokkuð spakri veðráttu, og ekki verður nein gaddnepja2 eða hreggviðri.
Skógarþrestir og auðnutittlingar fundu á sér einhverja breytingu á veðrinu frá því sem verið hefur, en verði hvellingasamt fyrir næstu helgi, hafa þeir ekki fundið þá veðrabreytingu, þó náið sé nef augum.
Seimaraftur3 hafði spurnir af miklu hrafnaþingi í Hörgárdal fyrir fáeinum dögum. Þar hafa eflaust verið tekin mörg mál fyrir líkt og á öðrum þingum. Þá hafa þeir líklega skipað sér niður á bæi sveitarinnar til vetrardvalar.
Fölna grös, en blikna blóm,
af björkum laufin detta.
Dauðalegum drynur óm
dröfn við fjarðar-kletta.
(Kristján Jónsson Fjallaskáld)
Skráð hefur G.J. aðalritari og trúnaðarmaður
1 Sjá meira um efnið í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 15. október 2000.
2 Þegar vindur og frost fara saman.
3 Maður.
Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2010