Konur og kvenfélög


Konur og kvenfélög


Skólahúsið á Ytri-Ey

Skólahúsið á Ytri-Ey í Húnaþingi.


Skólahúsið fyrra á Blönduósi

Skólahúsið fyrra á Blönduósi.

Ingibjörg Benediktsdóttir skáldkona

Ingibjörg Benediktsdóttir skáldkona
var kennslukona á Blönduósi árin 1910-1912.



Norræni skjaladagurinn 2009 ber yfirskriftina Konur og kvenfélög. Ein ástæðan fyrir vali á þessu þema er að um þessar mundir hafa héraðsskjalasöfnin bundist samtökum um að safna gögnum um kvenfélög víðs vegar um landið. Mun afrakstur þeirrar söfnunar vera til sýnis í þeim söfnum sem taka þátt í norræna skjaladeginum, annað tveggja með opnu húsi eða með upplýsingum á netsíðu dagsins, skjaladagur.is.

Fyrsta kvenfélagið í landinu var stofnað 9. júní 1869 og var það Kvenfélag Rípurhrepps í Skagafirði. Fleiri félög voru stofnuð á næstu árum og smám saman breiddust þau út um allt land. Þessi félög studdu að margvíslegum menningarlegum framfaramálum og gera enn.

Á áttunda áratug nítjándu aldar voru stofnaðir sérskólar á sviði alþýðlegrar framhaldsmenntunar, þar á meðal kvennaskólar. Frumkvöðullinn var Þóra Melsted sem stofnaði Kvennaskólann í Reykjavík 1874 með góðum stuðningi frá Danmörku. Á Laugalandi í Eyjafirði var stofnaður kvennaskóli 1877 og 1879 í Húnaþingi sem var á Ytri-Ey frá 1883-1901 en á Blönduósi upp frá því.

Í kvennaskólunum togaðist á krafan um almenna menntun annars vegar og um hagnýta menntun fyrir verðandi húsmæður hins vegar. Sumir töldu að nóg væri fyrir stúlkur að kunna að lesa og skrifa og dálítið að reikna en áherslan ætti að vera á hreinlæti, matargerð og meðferð fatnaðar. Þegar kom fram yfir 1920 efldist skólastarf í landinu og þá fjölgaði m.a. kvennaskólum verulega, voru þá slíkir skólar í öllum landsfjórðungum. Á þeim árum sveigðust námsskrár þeirra þannig að dregið var úr almennri fræðslu en meiri áhersla lögð á verknám. Eftir seinna stríð dró smám saman úr aðsókn að kvennaskólunum og lognuðust þeir út af einn af öðrum. Átti uppkoma fjölbrautarskólanna verulegan þátt í þeirri þróun því með þeim opnuðust fleiri námsleiðir en áður.

Á þessum vef er að finna margs konar efni frá skjalasöfnunum í landinu sem á það sammerkt að að tengjast konum og kvenfélögum með einum eða öðrum hætti. Margt hefur þar horft til framfara landi og lýð. Skal minnt á það með erindi úr kvæði eftir Ingibjörgu Benediktsdóttur skáldkonu (1885-1953), sem var kennslukona við Kvennaskólann á Blönduósi árin 1910-1912:

Göfgar konur gengu að starfi,
guldu hlut af systurarfi
svönnum þeim sem þráðu heitast
þrek í lund og sól í bæ.
Kennt þær hafa í máli, myndum,
miðlað, veitt af þroskalindum.
Fjærst til stranda, fram til dala
farsæl áhrif geymast æ.