Minningarsjóður Sigríðar Eiríksdóttur, ljósmóður
stofnaður af Kvenfélagi Stokkseyrar

Nokkur skjöl er varða Minningarsjóð Sigríðar Eiríksdóttur.
Mynd 1: Nokkur skjöl er varða Minningarsjóð Sigríðar EiríksdótturMynd 2: Merki minningarsjóðsins
Í Þjóðólfi, blaði framsóknarmanna á Suðurlandi,
11. nóvember 1982 birtist þessi pistill frá Sambandi sunnlenskra kvenna þar sem þær minntust Sigríðar Eiríksdóttur.
„Haustið 1909, þann 26. okt. fæddist að Sandhaugum í Bárðardal, Jóhanna Sigríður dóttir hjónanna Guðrúnar Jónsdóttur og Eiríks Sigurðssonar. … Sigríður stundaði nám í húsmæðraskólanum að Laugum 1930-1931. Fluttist síðan á Suðurland, var í Laugarvatnsskóla 1931-1932, bjó síðan hjá systur sinni á Selfossi þar til hún giftist Sigurði Ingólfi Sigurðssyni formanni í Dvergasteinum á Stokkseyri 26. des. 1935 - þar bjuggu þau sinn búskap.
Ljósmóðurfræði nam hún í Reykjavík 1937-1938. Var skipuð ljósmóðir í Stokkseyrarhreppi 1943. Gengdi því embætti til æviloka, mun hafa tekið á móti um150 börnum, er hún lést, þann 6. febrúar 1954, af brunasárum er hún hlaut á heimili sínu. Þannig var lífshlaup Sigríðar Eiríksdóttur. Þetta var mikið áfall fyrir byggðarlagið, á þeim tíma er fæðingar á sjúkrahúsi voru svo til óþekktar hér um slóðir.
Þær konur, sem notið höfðu umönunar Sigríðar tóku höndum saman og stofnuðu minningarsjóð á vegum Kvenfélags Stokkseyrar … Var sjóðnum ætlað að standa undir kostnaði við eitt herbergi á Sjúkrahúsi Suðurlands er þá virtist í sjónmáli og bera nafn Sigríðar.
Hér var stofnað til og unnið af djörfung og stórhug. Merki sjóðsins voru seld á hverju hausti þann 26. okt. Árum saman var haldinn basar og margir einstaklingar bæði utan sveitar og innan gáfu peninga til eflingar sjóðnum.
En árin liðu, ekki reis sjúkrahúsið, verðgildi krónunnar rýrnaði. Því var ákveðið að kaupa fæðingarrúm fyrir sjóðinn, var leitað til ljósmóður og læknis um gerð þess, er það nú þegar tekið í notkun.
Af heilum hug, óskum við Sjúkrahúsi Suðurlands allra heilla í framtíðinni - von okkar er sú að þau börn sem þar fæðast verði gæfusöm - heilbrigðir einstaklingar - foreldrum sínum og þjóð til sóma.
Stjórn Kvenfélags Stokkseyrar“.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Árnesinga
Texti: Þorsteinn Tryggvi Másson