Konur og kvenfélög


Kvenfélagið Líkn 100 ára - 1909-2009


Kvenfélagskonur í Samkomuhúsi Vestmannaeyja 1969

Kvenfélagskonur við kaffihlaðborðið í Samkomuhúsi Vestmannaeyja í tilefni 1. desember 1969.
Lengst til hægri á myndinni stendur Anna Þorsteinsdóttir frá Laufási formaður félagsins 1966-1987.

Mynd 1: Kvenfélagskonur við kaffihlaðborð í Samkomuhúsi Vestmannaeyja 1. desember 1969
Mynd 2: Kaffihlaðborð Líknar í Samkomuhúsi Vestmannaeyja 1. desember 1959

Kaffihlaðborð í Samkomuhúsi Vestmannaeyja 1959

Kaffihlaðborð í Samkomuhúsi Vestmannaeyja í tilefni 1. desember 1959, fyrir 50 árum.


Kvenfélagið Líkn hefur lengi verið eina kvenfélagið, sem verið hefur beinn aðili að Kvenfélagasambandi Íslands. Landfræðileg lega Vestmannaeyja gerir það nauðsynlegt að félagið hafði séraðild, en er ekki hluti af Sambandi sunnlenskra kvenna (S.S.K.)

Félagið var stofnað í Vestmannaeyjum þann 14. febrúar árið 1909, og er því hundrað ára á þessu ári, og var veglega haldið upp á afmælið í febrúar síðastliðnum. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir í Vestmannaeyjum 1906-1924. Halldór gaf félaginu nafnið Líkn, sem er fallegt og vel viðeigandi samkvæmt tilgangi félagsins, sem var að hlynna að og líkna bágstöddum og sjúkum bæjarbúum í Vestmannaeyjum, og veita þeim aðra þá aðstoð sem félagið getur veitt hverju sinni.

Stofnendur félagsins voru alls 23 konur, og var árgjaldið fyrsta árið 1 króna sem átti að greiðast með 0,25 kr. framlagi ársfjórðungslega. Fyrsti formaður félagsins var Ágústa Eymundsdóttir frá Hól, aðrar í stjórn með henni voru þær Anna Gunnlaugsson Kirkjuhvoli (kona Halldórs læknis), féhirðir, Jóhanna Árnadóttir Stakkagerði, ritari, Ásdís Johnsen Breiðabliki, meðstjórnandi og Ólöf Lárusdóttir Kirkjubóli, meðstjórnandi.

Á stofnfundi félagsins afhenti Halldór héraðslæknir félaginu sparisjóðsbók með 200 kr. innistæðu og með þeim peningum gátu konurnar hafist handa við að hjálpa og líkna bágstöddu fólki í bænum. Þetta starf er líklega fyrsti vísirinn að heimahjúkrun í Vestmannaeyjum.

Eitt meginmarkmið félagsins hefur frá upphafi verið stuðningur við sjúka í Vestmannaeyjum og Sjúkrahús Vestmannaeyja, síðar Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Hefur félagið frá miðri síðustu öld gefið til sjúkrahússins nánast á hverju ári og er heildarverðmæti gjafanna varlega áætlað nokkur hundruð milljónir króna. Það er nánast annar hver hlutur á Heilbrigðisstofnuninni merktur sem gjöf frá Líkn og það lýsir betur en flest annað hvað félagið hefur þýtt fyrir stofnunina í gegnum árin, enda er Heilbrigðisstofnunin eitt best búna sjúkrahúsið á landsbyggðinni. Auk sjúkrahússins hefur félagið styrkt Hraunbúðir (dvalarheimili aldraðra), barnaheimilin, kirkjuna, íþróttamiðstöðina, ásamt fjölda einstaklinga og heimila í bænum.

Árið 1919 var sjúkrasjóður félagsins stofnaður, en í þann sjóð gengur ágóði af sölu minningarkorta, jólakorta og hlutaveltum.

Auk líknarstarfseminnar hefur félagið haldið uppi menningarstarfsemi, t.d. ýmsum námskeiðum, einkum þó í hannyrðum, saumum og matargerð, og einnig sett upp leiksýningar. Þá sá félagið um að halda Þjóðhátíð Vestmannaeyja á árunum 1910-1916, ýmist eitt eða með öðrum. Síðustu áratugina hafa svo kvenfélagskonur farið í orlofsferð húsmæðra, sem verið hefur í boði fyrir allar konur með lögheimili í Eyjum, með styrk frá bænum og nýtur ferðin sívaxandi vinsælda.

Meðal fastra liða í starfsemi félagsins eru kaffisala (vöfflur og súkkulaði) á 17. júní, og 1. des. kaffið (aðventukaffið) og basarinn sem haldinn er í Höllinni og stór hluti bæjarbúa sækir á hverju ári. 1. desember næstkomandi verða 80 ár frá því fyrsta kaffihlaðborðið var haldið árið 1929. Aðventukaffið er ómissandi í undirbúningi jólanna í Vestmannaeyjum, og mörg fyrirtæki í bænum hafa það fyrir fastan sið að bjóða starfsfólki sínu í kaffið.

Ágústa Hulda Árnadóttir núverandi formaður Líknar er 18. formaður félagsins, og félagskonur sem eru alls um 130 vinna ötullega saman að hinum ýmsu framfaramálum félagsins. Saga félagsins hefur verið skráð ítarlega í fundagerðabækur félagsins, en þær eru til samfellt frá upphafi, og hafa þær nú ásamt reikningabókum þess og öðrum gögnum verið afhentar Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja til varðveislu.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja
Texti: Jóna Björg Guðmundsdóttir