Tíbrá og upphaf kvennasamtaka í Austur-Skaftafellssýslu

Konur í kvenfélaginu Tíbrá komu saman í „samkomubragganum“ á Höfn 19. júní 1947.
Mynd 1: Konur í kvenfélaginu Tíbrá í „samkomubragganum“ á Höfn 19. júní 1947Mynd 2: Félagskonur í Tíbrá á Sögu árið 1974

Titilblað úr einni gerðarbók Tíbrár.
Fyrsta félag kvenna sem stofnað var í Austur-Skaftafellssýslu var kvenfélagið Tíbrá á Höfn. Félagið stofnuðu 11 konur í íbúðarhúsinu Garði 8. febrúar 1924. Á stofnfundinum voru samþykkt lög fyrir félagið en þar sagði að tilgangurinn væri að „efla samvinnu og félagsskap meðal kvenna og styða að aukinni menntun þeirra og líknarstarfsemi“. Fyrstu stjórn Tíbrár skipuðu: frú Ingibjörg Friðgeirsdóttir, formaður, ungfrú Anna Þórhallsdóttir, ritari og frú Guðríður Jónsdóttir, gjaldkeri.
Óhætt er að segja að Tíbrárkonum hafi tekist vel að vinna í anda laganna því þær hafa beitt sér fyrir mörgum framfaramálum í byggðarlaginu, ekki síst á sviði menningarmála og líknarnmála. Fjáröflun félagsins hefur verið með margvíslegum hætti, eins og t.d. með tombólum og skemmtanahaldi. Á öðrum fundi félagsins, 19. mars 1924, var samþykkt að halda skemmtisamkomu til ágóða fyrir félagið. Var þá ákveðið að leika tvö smáleikrit sem hétu Valur & co og Trína í stofufangelsi og var það gert 29. mars. Eru það fyrstu leikritin sem sett voru á svið á Höfn.
Á næstu árum voru stofnuð kvenfélög í öllum sveitum sýslunnar: Vaka í Nesjum, Grein í Lóni, Eining á Mýrum, Ósk í Suðursveit og Björk í Öræfum. Árið 1947 stofnuðu þessi kvenfélög með sér samtök, Samband austur-skaftfellskra kvenna. Sambandið hefur komið að mörgum framfaramálum sem varða alla sýslubúa og ber þar hæst stofnun Elli- og hjúkrunarheimilis Austur-Skaftafellssýslu sem sambandið hafði forgöngu um.
Heimildir
Textinn er m.a. byggður á Sögu Hafnar eftir Arnþór Gunnarsson og Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu eftir Gísla Björnsson.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Austur-Skaftafellssýslu
Texti: Sigurður Örn Hannesson