Kvennfélag Norðfjarðar - Kvennfélagið Nanna

Barnaskólinn í Nesþorpi.
Mynd 1: Barnaskólinn í NesþorpiMynd 2: Sjúkrahúsið í Bjarnaborg
Mynd 3: Sjúkrahúsið í Neskaupstað 1960

Kvennfjelagið Nanna, stofnfundargerð.
Sunnudaginn 27. janúar 1907 var haldinn kvennafundur á Nesi í Norðfirði að frumkvæði Guðnýjar Þorsteinsdóttur prestsfrúar. Tilgangur fundarins var að stofna kvenfélag í byggðarlaginu.
Í annarri grein laga félagsins segir:
Tilgangur félagsins er fyrst og fremst sá, að styðja við það sem horfir til framfara og heilla og þar næst að leitast við að gjöra fundi fjelagsins svo skemmtilega og uppbyggjandi sem tök eru á.
Nafni félagsins var breytt í Kvennfélagið Nanna árið 1910.
Fljótlega fóru konurnar að huga að fjáröflun til að styrkja góð málefni og í febrúar 1907 var ákveðið að styrkja barnaskólabyggingu í Nesþorpi. Fóru fjáraflanir fram með bögglauppboðum, hlutaveltum, lotteríi og dansleikjum.
Kvenfélagið hóf að afla fjár til byggingar spítala á Norðfirði þegar á árinu 1916 en árið 1911 höfðu Norðfjörður og Mjóifjörður orðið sérstakt læknishérað samkvæmt ákvörðun Alþingis. Spítala var fyrst komið á fót á Norðfirði árið 1926, í húsinu Bjarnaborg, þá afhentu kvenfélagskonur oddvita Neshrepps fjársöfnun sína sem þá nam 727 krónum.
Bygging Sjúkrahússins í Neskaupstað fór heldur ekki varhluta af stuðningi félagsins og átti það fulltrúa í byggingarstjórn frá upphafi og lagði reglulega fjármagn til byggingarinnar. Eftir að húsið var tekið í notkun studdi félagið það með kaupum á tækjum og áhöldum.
Um það leyti er sjúkrahúsið tók til starfa lögðu kvennfélags- og slysavarnakonur á sig mikla vinnu við að saumaskap fyrir sjúkrahúsið, en of dýrt þótti þá að kaupa gluggatjöld, rúmfatnað, föt og annað tilbúið svo að konurnar tóku sig til og saumuðu allt sem til þurfti.
Um 1930 tóku konurnar virkan þátt í byggingu nýs barnaskóla, sem notaður er enn þann dag í dag þó búið sé að byggja við hann og endurbæta. Eftir liðlega 100 ára starfsemi er Kvennfélagið Nanna enn að störfum í þágu Norðfirðinga.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar
Texti: Guðmundur Sveinsson