Konur og kvenfélög


Kvenfélagið Einingin


asd

Félagskonur árið 1936. Myndin er tekin við Bakkagerðiskirkju.
Fremsta röð f.v.: Una Árnadóttir, Guðfinna Þórðardóttir, Steinunn Þorláksdóttir, Þórhildur Sveinsdóttir, Ingunn Ingvarsdóttir, Sigurlaug Helgadóttir, Ragnhildur Hjörleifsdóttir, Anna Jónsdóttir, Ágústa Högnadóttir.
Miðröð f.v.: Valgerður Jónsdóttir, Þórína Þórðardóttir, Guðný Þorsteinsdóttir, Jóhanna Ásgrímsdóttir, Björg Helgadóttir, María Þorkelsdóttir, Anna Jónsdóttir, Guðbjörg Helgadóttir, Jónanna Steinsdóttir, Lára Stefánsdóttir.
Aftasta röð f.v.: Bergrún Árnadóttir, Guðbjörg Sigurðardóttir, Ingibjörg Björnsdóttir, Laufey Jónsdóttir, Ásta Eiríksdóttir, Guðrún Bjarnadóttir.


Sumarið 1914 fengu nokkrar konur á Borgarfirði eystra Jóhannes Kjarval til að mála altaristöflu í Bakkagerðiskirkju. Í framhaldi vaknaði áhugi á samstarfi um fleiri góð mál sem leiddi til þess að kvenfélagið Einingin var stofnað þann 12. september 1915 og voru stofnfélagar 13.

Tilgangur félagsins var m.a. að efla samvinnu kvenna á Borgarfirði og vinna að málefnum er stuðlað gætu að heill einstaklinga, hreppsins og þjóðarinnar. Til fjáröflunar héldu konurnar hlutaveltur og skemmtisamkomur og stóðu að leiksýningum sem örugglega léttu lífið og tilveruna í þessari afskekktu byggð.

Hér er of langt mál að telja upp öll þau góðu verk sem félagið hefur látið af sér leiða. Fljótlega var stofnaður sjúkrasjóður, einnig lögðu félagskonur áherslu á að efla heimilisiðnað, efndu til námskeiða, festu kaup á spunavél, vefstól og einnig prjónavél sem leigð voru afnot af. Einnig styrktu þær kirkjuna og barnaskólann með peningagjöfum og kaupum á munum. Þá tóku þær þátt í byggingu félagsheimilisins Fjarðaborgar og mætti svo lengi telja.

Nú þegar aldarafmæli Einingar er í sjónmáli lifir félagið góðu lífi og leggur sem fyrr góðum málum lið bæði á heimavelli og innan landsfjórðungsins.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Austfirðinga
Texti: Arndís Þorvaldsdóttir