Konur og kvenfélög


Kvenfélagið Iðunn


Sjóhattasaumur

Margt hefur verið gert til fjáröflunar. Hér er verið að sauma sjóhatta til að selja á Handverkshátíðinni á Hrafnagili 2005
en þemað var hafið.


Kvenfélagskonur gróðursetja skjólbelti

Kvenfélagskonur gróðursettu skjólbelti syðst í lóð Hrafnagilsskóla á Kvennadaginn 19.júní 1985. Tré til heiðurs Aldísi Einarsdóttur 100 ára heiðursfélaga. Frá vinstri: Benný Jóhannsdóttir, Svanhildur Eggertsdóttir og Aldís Einarsdóttir.


Kvenfélagið Iðunn Hrafnagilshreppi var stofnað 11. desember 1932. Lög kvenfélagsins kveða á um að veita eigi heimilum aðstoð vegna veikinda og vildu félagskonur frá fyrstu tíð að unnið yrði að þeim málum sem gætu orðið sveitinni til farsældar. Ýmis námskeið voru haldin í handíðum og unnið var að fjáröflun m.a. með samkomum. Þegar Grundarkirkja varð 50 ára gaf kvenfélagið kirkjunni messuskrúða. Þegar félagsheimilið Laugarborg var byggt árið 1959 eignaðist félagið 1/5 hlut í húsinu og vann þar mikla sjálfboðavinnu. Aðstaða til félagsstarfs breyttist mikið með tilkomu hússins og skiptu kvenfélagskonur sér niður í 4 vinnuflokka sem önnuðust til skiptis dansleiki sem haldnir voru fyrstu árin í húsinu. Árlega voru barnasamkomur haldnar og sá kvenfélagið alfarið um þær. Lengi vel var samvinna milli ungmennafélagsins um stærri samkomur og einnig leikstarfsemi sem oft var með miklum blóma. Námskeið sem haldin hafa verið hjá kvenfélaginu eru mörg og mismunandi og hafa fjölmargar konur nýtt sér það. Reynt er að koma á námskeiðum ef áhugi er fyrir hendi og staðið hefur verið fyrir fræðslufundum í samvinnu við kvenfélögin í sveitarfélaginu. Kvenfélagið vann mikið og ötult starf í þágu sinnar heimabyggðar og gróðursetti m.a. skjólbelti við Hrafnagilsskóla.

Í gegnum árin hefur félagið styrkt ýmsa aðila og stofnanir með peningagjöfum, m.a. lagði það fé til Laugalandsskóla og einnig til sundlaugarbyggingar í hreppnum. Félagið hefur oft lagt fé til fjármögnunar á tækjum fyrir Fjórðungssjúkrahús Akureyrar þá aðallega fyrir barna- og fæðingadeildina. Þá hefur félagið stutt Hrafnagilsskóla, Leikskólann Krummakot, Kristnesspítala, nú síðast með hægindahjólastól, meðferðarheimilið Laugalandi, auk fjölda einstaklinga sem eiga við veikindi að stríða. Í fjáröflunarskyni heldur félagið jólabasar og einnig sjá konur um kaffi á fundum og í erfidrykkjum í Laugarborg sé þess óskað. Undanfarin ár hafa kvenfélagskonur einnig búið til og selt muni á Handverkshátíðinni á Hrafnagili. Þar ber að nefna sjóhatta, spiladósir og hið vinsæla uppskriftadagatal.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Texti: Sólveig Haraldsdóttir