Kvenfélagið Baldursbrá Akureyri

Kvenfélagskonur strauja fermingarkyrtla. Vorið 1955 gaf félagið fyrstu fermingarkyrtlana til Lögmannshlíðarkirkju en félagið hefur æ síðan gefið þeirri kirkju og Glerárkirkju kyrtla og annast viðhald þeirra og umhirðu.
Félagið var stofnað árið 1919 af konum í Glæsibæjarhreppi en um helmingur þeirra var úr Glerárþorpi. Meginmarkmið félagsins var að hjálpa veikum og fátækum en eitt af fyrstu verkefnunum var að kosta konu til hjúkrunarnáms og starfaði hún síðan fyrir félagið. Eftir ágæta byrjun gekk illa að fá hjúkrunarkonur til að starfa fyrir félagið en félagskonur söfnuðu líka fé til gjafa og styrktar fjölskyldum sem áttu í erfiðleikum.
Á fjórða áratugnum fóru áherslur félagsins að breytast þó stuðningur við þorpsbúa væri stór hluti félagsstarfsins. Byrjað var að bjóða upp á handavinnunámskeið og 1936 fékk félagið tvær dagsláttur til ræktunar í miðju Glerárþorpi. Þarna komu félagskonur upp matjurtagarði og seldu grænmeti en hluti landsins var leigður út. Síðar var byrjað að planta trjám í garðinn og smátt og smátt breyttist hann í skrúðgarð. 1972 var garðurinn afhentur Akureyrarbæ til eignar.
Eftir því sem árin liðu fækkaði sveitakonum í félaginu en 1948 stofnuðu þær sérstakt félag. Baldursbrá var eitt af stofnfélögum Sambands eyfirskra kvenna (félög fyrir norðan Akureyri) en eftir að búið var að sameina Glerárþorp og Akureyrarbæ gekk félagið í Kvennasamband Akureyrar.

Á árunum 1996-2003 hélt félagið spurningakeppni meðal fyrirtækja og stofnana á Akureyri. Spurningakeppnin varð afar vinsæl en ágóðinn rann til margvíslegra mannúðarmála. Hér eru sigurvegararnir í keppninni 1999, frá vinstri Erlingur Sigurðarson, Arnar Sigtýsson og Höskuldur Höskuldsson. Þeir kepptu fyrir Karlakór Akureyrar - Geysi.
Frá 1965 beindist athyglin nokkuð að málefnum þroskaheftra og var Vistheimilið Sólborg styrkt á ýmsan hátt. Ekki gleymdu konunar þó öðrum málum s.s. sjúkrahúsinu, sundlauginni, kirkjunni og mörgum öðrum mannúðar og líknarmálum. Með bréfum og ályktunum lögðu félagskonur því lið að sundlaug yrði byggð við Glerárskóla og á sama tíma komst barátta fyrir bygging kirkju í Glerárhverfi á nokkurn rekspöl. Sumarið 1979 hófust árlegar messur í Kvenfélagsgarðinum þar sem prestarnir minntu á kirkjuleysið og kvenfélagskonur seldu kaffi og kökur. Var það upphafið að kirkjusjóði félagsins og miklu og góðu starfi fyrir kirkjuna. Félagið hefur síðan látið margt af hendi rakna til kirkjunnar og ber þar sennilega hæst steindan glugga eftir Leif Breiðfjörð.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafninu á Akureyri
Texti: Lára Ágústa Ólafsdóttir