Konur og kvenfélög


Sængurvika á Sauðárkróki


Hið skagfirska kvenfélag 1908

Hið skagfirska kvenfélag 1908.


asd

Ávarp frá fátækum á Sauðárkróki.

Hið skagfirska kvenfélag, sem stofnað var á Sauðárkróki árið 1895 vann ötullega að ýmsum framfaramálum. Sem dæmi um stórhug kvenfélagskvenna og mikilvægi félagsins má nefna að félagið stóð fyrir svokallaðri sængurviku frá árinu 1902-1939. Sængurvikan fólst í því að félagskonur skiptu með sér matargjöfum til sængurkvenna í eina viku eftir barnsburð. Síðar eignaðist félagið rúmfatnað, sem lánaður var til sængurkvenna.

Á meðan konur eignuðust öll börn sín heima við misjafnar aðstæður var þessi hjálp nauðsynleg, enda fátækt landlæg og fjöldi kvenna nýtti sér þessa aðstoð félagsins, einkum þegar karlmenn voru að heiman að leita sér vinnu, en konurnar voru einar með ómegðina. Þetta starf félagsins var um margt einstakt og í sumum tilfellum er víst að það hafi skilið milli lífs og dauða.

Starf kvenfélagskvenna á fyrri hluta 20. aldar markaðist af fádæma umhyggju fyrir lífi samborgaranna og þrátt fyrir að félögin væru oft á tíðum fámenn var með ólíkindum hverju þau áorkuðu til þess að gera samfélagið betra og manneskjulegra.


Heimild

  • Aðalheiður B. Ormsdóttir, Við Ósinn, Rvk. 1987 og fundagerðabækur Hins skagfirska kvenfélags í HSk.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Skagfirðinga
Texti: Unnar Ingvarsson.