Konur og kvenfélög


Kvenfélög verða til


Húsin í Ási í Hegranesi

Húsin í Ási í Hegranesi.


Árið 1869 var tímamótaár í sögu íslenskra kvenna, en 7. júní það ár var boðað til sérstaks kvennafundar á Ási í Hegranesi í Skagafirði. Þarna er að finna upphaf kvenfélagahreyfingarinnar á Íslandi og fundir kvenna í Rípurhreppi urðu öðrum konum hvatning til samstarfs víða um land.

Konurnar sem funduðu í Skagafirði höfðu háleit markmið. Tillögur þeirra voru í senn til þess ætlaðar að bæta afkomu búa sinna með margvíslegum hætti en ekki síður að efla menntun og þjóðlega hætti. Þannig lögðu þær áherslu á að láta kenna öllum börnum að reikna og skrifa og viðhalda þjóðerni eftir megni, sér í lagi til máls og klæðasniða, og láta börn eigi heita óþjóðlegum nöfnum.

Hugmyndin að stofnun þessa félags í fámennri sveit var án efa kominn frá heimilinu í Ási í Hegranesi, þar sem þá bjuggu Ólafur Sigurðsson og Sigurlaug Gunnarsdóttir. Sigurlaug var einstök hannyrðakona og voru hjónin í vinfengi við Sigurð málara Guðmundsson. Í samstarfi við Sigurð saumaði Sigurlaug hátíðarbúning fyrir konur, skautbúninginn, sem vera átti þjóðbúningur íslenskra kvenna og raunar karlabúning einnig, sem naut minni vinsælda. Áhugi og menntun Sigurlaugar í Ási varð til þess að kvennaskóli var stofnaður þar 1877 og er saga hennar um margt merkileg sem vitnisburður um metnað og áhrif kvenna á síðari hluta 19. aldar.


Heimild

  • Aðalheiður B. Ormsdóttir, Við Ósinn, Rvk. 1987.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Skagfirðinga
Texti: Unnar Ingvarsson.