Konur og kvenfélög


Konur og kvenfélög


Merki Sambands austur húnvetnskra kvenna

Merki Sambands austur-húnvetnskra kvenna.

Austur húnvetnskar konur í vegavinnu

Umfjöllun Spegilsins um vegavinnu austur-húnvetnskra kvenna.

Samband austur-húnvetnskra kvenna var stofnað 12. maí 1928. Markmið sambandsins er að efla samúð og samvinnu milli félaganna, sameina kraftana og styrkja sérhvert gott málefni sýslunnar og þjóðfélagsins eftir bestu getu. Félög innan sambandsins eru 10, eitt í hverjum hreppi.

Á sínum tíma stóð sambandið fyrir fjáröflun til byggingar Héraðssjúkrahúss á Blönduósi. Sambandið gekkst fyrir stofnun Krabbameinsfélags í samráði við héraðslækni og studdi að stofnun Tónlistarfélags Austur-Húnavatnssýslu 1970. Á vegum sambandsins er að rísa Heimilisiðnaðarsafn á Blönduósi í tengslum við Kvennaskólann. Auk þess var um skeið starfrækt heimilishjálp og skólagarður.

Árið 1972 hófst samstarf milli Búnaðarsambands sýslunnar og S.A.H.K. um verðlaunaveitingu fyrir góða umgengni utanhúss í sveitum.

Það mun hafa verið fyrir forgöngu Halldóru Bjarnadóttur að S.A.H.K. var stofnað. Hefur hún eflaust bent konum á að kvenfélögin mættu sín meira saman, en hvert fyrir sig, enda hefur það sýnt sig.

Þessar konur hafa verið formenn frá 1928 til 1971:

  • Guðríður S. Líndal, Holtastöðum
  • Ingibjörg Björnsdóttir, Torfalæk
  • Þuríður Sæmundsen, Blönduósi
  • Dómhildur Jónsdóttir, Skagaströnd
  • María Jónsdóttir, Blönduósi

Listkynning í Húnavatnssýslu var nýmæli en stjórn Sambands austur-húnvetnskra kvenna stóð fyrir þessari sýningu og hét hún List um landið sem Menntamálaráð studdi við. Á þeim tímamótum þegar sambandið varð 60 ára 12. maí 1988 var ákveðið að gera merki félagsins. Fyrir valinu varð teikning Rannveigar Jónsdóttur frá Skagaströnd.

Táknið á fánanum eru Vatnsdalshólarnir, einn stór og tíu minni, sem merkja sambandið og félögin.

Ákveðið var að reisa minnisvarða um vegavinnu kvenna í Kvenfélaginu Heklu í Skagahreppi, þær urðu svo frægar af sínu framtaki að Spegillinn birti mynd af þeim. Þær unnu þrjú sumur í sjálfboðavinnu í þrjá daga hvert sumar, munu hafa verið sextán konur með Önnu Tómasdóttur í Víkum í fararbroddi.

Myndirnar eru teknar úr 60 ára afmælisriti Sambandsins sem varðveitt er á Héraðsskjalasafni Austur-Húnavatnssýslu á Blönduósi.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Austur-Húnavatnssýslu
Texti: Svala Runólfsdóttir