Konur og kvenfélög


Skallagrímsgarður - fagur minnisvarði um Kvenfélag Borgarness


Skallagrímshaugur

Skallagrímshaugur. Ljósmyndari: Guðrún Jónsdóttir.


Kaffidrykkja í Skallagrímsgarði

Kvenfélagskonur að undirbúa kaffidrykkju í Skallagrímsgarði. Ljósmyndari: Guðrún Jónsdóttir.


Í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar eru geymd skjöl frá mörgum öflugum kvenfélögum sem starfa í Borgarfirðinum. Eitt þessara félaga er Kvenfélag Borgarness sem stofnað var 7. júní 1927. Í fyrstu fundargerðabók félagsins má sjá að á stofnfundinn mættu 14 konur og var fyrsti formaður þess Oddný Vigfúsdóttir. Í stefnuskrá Kvenfélagsins segir að tilgangur félagsins sé m.a. að standa að líknarstarfsemi, menningar- og ræktunarstörfum og að efla samúð og samvinnu meðal kvenna á félagssvæðinu. Fljótlega fóru konurnar að ræða um að koma upp skrúðgarði í bænum og fengu þær til þess heppilega lóð í Skallagrímsdalnum.



Fyrstu árin var Kvenfélagið í samstarfi við Ungmennafélagið um uppbyggingu garðsins og störfuðu félagsmenn ötullega bæði við garðyrkjustörf og í fjáröflun fyrir garðinn. Meðal þeirra kvenna sem lögðu hönd á plóginn má nefna Geirlaugu Jónsdóttur sem var formaður garðstjórnarinnar í mörg ár. Í Skallagrímsgarðinum er haugur landnámsmannsins Skallagríms. Þar er fjöldi trjáa og fjölærra blóma auk sumarblóma sem gróðursett eru á hverju ári. Einnig eru þar höggmyndir og gosbrunnur. Árið 1989 afhenti Kvenfélagið sveitarfélaginu garðinn til umsjónar og hefur honum verið haldið við með miklum glæsibrag.

Skallagrímsgarðurinn setur mikinn svip á bæjarlífið og er samkomustaður íbúanna á hátíðarstundum. Þar er 17. júní haldinn hátíðlegur og þar stendur Kvenfélag Borgarness fyrir kaffiveitingum. Óhætt er að segja að Skallagrímsgarðurinn er mikill yndisauki og staðarprýði fyrir heimafólk og gesti og á Kvenfélag Borgarness mikinn sóma skilið og er þetta góður minnisvarði um starf þess.


Heimildir

  • Skjalasafn Kvenfélags Borgarness EF018.

Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Borgfirðinga
Texti: Jóhanna Skúladóttir.