Kvenfélag Lágafellssóknar 1909-2009

Margrét á Gili.
Sunnudaginn 26. desember 1909, klukkan 12 á hádegi, voru saman komnar 11 konur að Völlum á Kjalarnesi til að vera viðstaddar stofnun kvenfélags er þær nefndu Kvenfélag Kjalarneshrepps. Flestar komu konurnar frá suðurhluta sveitarfélagsins, þ.e. Lágafellssókn. Fljótlega varð þó ljóst að ekki var alls kostar rétt að kenna félagið við Kjalarneshrepp því félagskonur komu einnig úr Mosfellssveit. Árið 1912 var nafninu því breytt í Kvenfélag Lágafellssóknar.
Á þeim 100 árum sem liðin eru hafa félagskonur staðið fyrir mörgum uppákomum og verið með puttana á ýmsum mikilvægum málum í sögu sveitarinnar. Upphaflega var meginmarkmið félagsins að hjálpa bágstöddum og voru fátækum mæðrum gefnar sængurgjafir og konur fengnar til aðstoðar á barnmörgum heimilum. Seinna voru einnig haldnar jólaskemmtanir fyrir börnin og árleg kaffiboð fyrir eldri sveitunga. Til að standa straum af kostnaði við þessa atburði voru helstu fjáröflunarleiðir félagsins basar og kaffisala við Hafravatnsrétt. Seinna tóku konurnar einnig að sér árlegt kaffisamsæti fyrir hestamannafélagið.
Þá má nefna að upphafleg hugmynd að byggingu skólabyggingarinnar að Brúarlandi kviknaði á fundi kvenfélagins árið 1912 sem varð að veruleika 10 árum seinna. Veglega peningagjöf rann til byggingar sundlaugar að Varmá, sem dugði langt upp í byggingarkostnað laugarinnar sem vígð var 17. júní 1964.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar
Texti: Birna Mjöll Sigurðardóttir.