Konur og kvenfélög


Kvennalistinn í Kópavogi býður fram í fyrsta skipti 1990


asd

Fundarboð Kvennalistans 8. mars 1990.


asd

Framboðslisti Kvennalistans í Kópavogi.


Samtök um kvennalista var stjórnmálaflokkur sem var stofnaður 13. mars 1983.

Áður höfðu komið fram kvennaframboð í Reykjavík og á Akureyri sem fengu kjörna fulltrúa í sveitarstjórnarkosningunum 1982. Í Alþingiskosningum 1983 voru sérstök kvennaframboð í þremur kjördæmum, Reykjavík, Reykjaneskjördæmi og Norðurlandskjördæmi eystra. Tvær konur náðu kjöri í Reykjavík og ein á Reykjanesi. Í sveitarstjórnarkosningunum 1986 buðu konur fram lista í Reykjavík, Hafnarfirði og á Selfossi og náði ein kona kjöri í Reykjavík og önnur á Selfossi, engin í Hafnarfirði. Í Alþingiskosningunum 1987 buðu konur fram í öllum kjördæmum og voru sex konur kjörnar í fjórum kjördæmum.

Samtök um kvennalista í Kópavogi buðu fram í bæjarstjórnarkosningum þar 26. maí 1990. Hófst undirbúningur þess framboðs með fundi í Félagsheimili Kópavogs 8. mars 1990. Stefnuskrá Kvennalistans í Kópavogi lagði áherslu á almenn velferðarmál, hagsmuni barna og fjölskyldufólks og að lífssýn kvenna yrði höfð að leiðarljósi í menningar- og tómstundamálum, húsnæðismálum, æskulýðsmálum, dagvistarmálum og málefnum aldraðra og fatlaðra.

Út komu tvö kosningablöð og auglýsingar og er nokkurt safn þess ásamt úrklippum úr blöðum varðveitt í Héraðsskjalasafni Kópavogs (Afh. 5/2005 Safn til sögu Kópavogs, öskju A/23, örk 2). Er þar hægt að glöggva sig betur á Kvennalistanum í Kópavogi.

Það var þó ekki fyrr en í bæjarstjórnarkosningunum 1994 að Kvennalistinn kom að einum fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs og var það Helga Sigurjónsdóttir. Kvennalistinn bauð ekki fram í kosningunum 1998, en var þá í samfloti við Alþýðuflokk og Alþýðubandalag um Kópavogslistann.


Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Kópavogs
Texti: Hrafn Sveinbjarnarson.