Líknarsjóður Áslaugar Maack

Áslaug Maack.
Byggt er á:
- Helga Þorsteinsdóttir „Líknarsjóður Áslaugar Maack“ 20 ára afmælisrit Kvenfélags Kópavogs, bls. 21-22. Kópavogi 1970.
- „Líknarsjóður Áslaugar Maack“ Ágrip af sögu Kvenfélags Kópavogs 1970-1990. Kvenfélag Kópavogs 40 ára. Afmælisrit, bls. 6. Kópavogi 1990.
Kvenfélag Kópavogs var stofnað 29. október 1950. Sextíu konur í Kópavogshreppi, þar sem þá bjuggu 1500 manns, sóttu stofnfundinn.
Fyrsti formaður félagsins var Áslaug Katrín Pétursdóttir Maack en hún lést í desember 1951. Hún var fædd á Stað í Grunnavík 27. janúar 1891. Hún giftist Þorsteini Pálssyni kaupmanni og bjuggu þau á Reyðarfirði í 34 ár. Þau eignuðust 6 börn. Þau fluttust í Kópavog 9. ágúst 1945.
Kvenfélag Kópavogs stofnaði Líknarsjóð Áslaugar Maack til minningar um hana á fundi 29. janúar 1952. Sjóðnum var ætlað að styrkja fjölskyldur eða einstaklinga í hreppnum sem vegna veikinda eða annarra erfiðleika þyrftu á hjálp að halda. Stjórn sjóðsins hafði ávallt þann sið að veita húsmæðrum þessa hjálp ef fjölskyldur áttu í hlut. Um styrki úr sjóðnum var ætíð fjallað sem einkamál. Skjalasafn sjóðsins er varðveitt í Héraðsskjalasafni Kópavogs samkvæmt því.
Í sjóðinn bárust peningagjafir og áheit. Til hans var safnað með sölu minningarkorta, blóma og barmmerkja, basarsölu, hlutaveltu og útgáfu jóla- og tækifæriskorta. Hluti af árgjöldum félagsmanna rann til hans. Árið 1954 var prentað merki Líknarsjóðsins, blómagrein með nafni sjóðsins í, hannað af Guðlaugu Kristjánsdóttur og selt einn dag á ári í nokkur ár. Blóm voru seld á kosningadögum og selt var kaffi á kjörstöðum. Frá 1960-1973 naut Líknarsjóðurinn fjárframlags frá Kópavogsbæ, en frá og með 1974 var styrkurinn afþakkaður þar sem honum fylgdu ýmis umsvif sem talin voru betur komin í höndum Félagsmálastofnunar.
Eftir nokkurn aðdraganda og umræður var samþykkt á félagsfundi Kvenfélagsins 18. nóvember 2001 að leggja sjóðinn niður frá 1. janúar 2002 og gefa það sem þá var í sjóðnum, sem voru 733.791 kr., til Sunnuhlíðar, hjúkrunarheimilis aldraðra í Kópavogi.
Öll árin sem sjóðurinn starfaði, frá og með árinu 1952, var úthlutað úr honum eftir því sem beiðnir og ábendingar bárust og fjárhagur leyfði.
Þetta efni er frá:
Héraðsskjalasafni Kópavogs
Texti: Hrafn Sveinbjarnarson.