Konur og kvenfélög


Manntöl



Fyrsta allsherjarmanntal á Íslandi var tekið árið 1703. Það er jafnframt elsta varðveitta manntal í heiminum þar sem íbúar lands eru nefndir með nafni, aldri, stöðu og heimilisfangi. Á 18. öld voru tekin nokkur manntöl en þau eru ekki jafn nákvæm og 1703. Frá árinu 1801 er til ítarlegt manntal en næsta eiginlegt manntal er gert 1835 og síðan á fimm ára fresti til 1860. Eftir það voru manntöl tekin á tíu ára bili allt til 1981 þegar síðast var tekið allsherjarmanntal hér á landi.

Hér er manntal frá Staðarfelli í Dölum, tekið 1. desember 1960. Þar eru aðeins skráðar fimm námsmeyjar en ýmislegt tiltekið um hag þeirra og stöðu. Viðlíka upplýsingar eru til um fólk alls staðar á landinu.

Ekki síður eru merkilegar upplýsingar um húsakynni á eyðublaðinu og eru svipaðar upplýsingar að hafa í manntölum frá 20. öld. Hér kemur fram aldur hússins, um byggingarefnið og fjölda herbergja.


Kvennaskólinn á Staðarfelli er kyntur með olíu og fær rafmagn frá einkarafstöð til ljósa og eldunar en er ekki tengdur almenningsveitu. Það kemur líka fram að í húsinu er vatnssalerni, svo og baðker og steypibað og skólpleiðsla liggur frá húsinu.

Með því að bera saman upplýsingar í manntölum má, auk mannfræðilegra upplýsinga, fá mikilsverðar upplýsingar um þróun bygginga í landinu.


Þetta efni er frá:
Þjóðskjalasafni Íslands
Texti: Jón Torfason