Konur og kvenfélög


Kvenfélag byggir félagsheimili



Umsókn um framlag

Umsókn Kvenfélagsins um framlag úr félagsheimilasjóði.

Kvenfélag var stofnað í Hveragerði árið 1951. Áður höfðu kvenfélagskonur í Hveragerði átt athvarf í Kvenfélaginu Bergþóru í Ölfusi sem stofnað var árið 1927, en eftir að Hveragerði varð sérstakur hreppur árið 1946 þótti eðlilegt að sérstakt kvenfélag starfaði innan sveitarfélagsins. Starfsemi Kvenfélags Hveragerðis varð fljótt öflugt. Árið 1964 réðust kvenfélagskonur í það stórvirki að byggja félagsheimili undir starfsemina. Fjár til byggingarinnar öfluðu þær með sjálfboðastarfi, m.a. við hlutaveltur, kaffisölu á tyllidögum, merkjasölu og árlegum blómadansleik þar sem m.a. var valin blómadrottning úr hópi ungra meyja, en þessir dansleikir voru í áratugi fastir liðir í menningar- og skemmtanalífi Hvergerðinga. Einnig fékk félagið styrk úr félagsheimilissjóði ríkisins.

Félagsheimilið var 115m² að stærð, ein hæð með litlum kjallara og byggt á rúmlega 1000 m² lóð. Ætlunin var að það nýttist undir ýmsa almenna félagsstarfsemi, s.s. fundahöld, námskeið og unglinga- og tómstundastarf. Félagsheimilið var þó einkum byggt fyrir leikskóla sem kvenfélagskonur ráku frá upphafi í húsinu, fyrst eingöngu á sumrin en síðar allt árið um kring. Kvenfélag Hveragerðis rak leikskóla í félagsheimilinu allt til ársins 1977 er Hveragerðishreppur tók yfir starfsemina. Leikskóli var rekinn í húsnæðinu allt til ársins 2004. Í dag er húsið nýtt undir skóladagvist, en Hveragerðisbær leigir húsnæðið af Kvenfélagi Hveragerðis.


Þetta efni er frá:
Þjóðskjalasafni Íslands
Texti: Njörður Sigurðsson