Kvennaskólar
Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður 1874 og var það fyrsti kvennaskólinn í landinu. Kvennaskóli var stofnaður í Húnaþingi 1879 og var nokkuð á hrakhólum fyrstu árin en var frá 1883-1901 á Ytri-Ey en þá fluttur inn á Blönduós þar sem hann var starfræktur eftir það.
Þegar þar var komið sögu hafði verið dregið úr eiginlegri húsmæðrakennslu en skólinn farinn að vera með gagnfræðaskólasniði, þar sem kennslugreinar voru skrift, réttritun, málfræði, reikningur, landafræði, Íslandssaga, danska, náttúrufræði og teikning en enska, söngfræði og orgelspil sem aukagreinar. Þó var mikil áhersla lögð á sauma og hannyrðir. Hér má sjá lista yfir þær bækur sem notaðar voru í skólanum veturinn 1902-1903. Það vekur athygli að margar kennslubækurnar eru á dönsku.
Árið 1924 var hins vegar breytt um stefnu og meiri áhersla lögð á fatasaum, matargerð og fræðslu um hreinlæti og heilbrigði.
Námsmeyjar voru að stórum hluta úr næstu sveitum en þó voru nokkuð margar talsvert langt að komnar eins og sjá má af lista yfir nemendur árið 1902-1903. Þær eru úr Borgarfirði, Dölum og Ströndum en þær sem lengst áttu að sækja voru úr Skaftafellssýslum, Múlasýslum og Þingeyjarsýslum.
Þetta efni er frá:
Þjóðskjalasafni Íslands
Texti: Jón Torfason

Skrá um bækur og bóklegt nám í Kvennaskólanum á Blönduósi.