Norrænn skjaladagur
Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa lengi kynnt starfsemi sína með ýmsu móti. Árið 2001 sameinuðust þau um árlegan kynningardag, annan laugardag í nóvember.
Upphaflega var ákveðið var að annað hvert ár skyldi dagurinn helgaður sameiginlegu norrænu þema. Þess á milli áttu söfnin að hafa frjálsar hendur. Árið 2006 var ákveðið að hafa sameiginlegt þema þriðja hvert ár og skyldi þemað ákveðið og kynnt á norrænum skjaladögum árið áður.
Mörg skjalasöfn opna hús sín fyrir almenningi á þessum degi og vekja athygli á tilteknum skjalaflokkum, oft með því að setja upp sýningar á völdum skjölum.
Í ár er þema skjaladagsins „Gleymdir atburðir“. Hægt er að lesa nánar um þemað í leiðara skjaladagsins og kanna hvað er á dagskrá hjá þeim skjalasöfnum sem hafa opið á skjaladeginum.
Þótt lög gildi um opinbera skjalavörslu er ekki nægilega áréttað að einstaklingar í félögum, stofnunum og fyrirtækjum ráða miklu um hvað verður um gögn sem þeir vinna með eða varðveita. Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl eiga erindi á skjalasöfn. Og því er fólk hvatt til að hafa samband við næsta héraðsskjalasafn eða Þjóðskjalasafn ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við.