Tilgangur norræna skjaladagsins er að kynna starfsemi skjalasafnanna í landinu og leggja jafnframt áherslu á sameiginlega þætti í sögu Norðurlandanna. Að þessu sinni er þema dagsins "gleymdir atburðir." Hugsunin er m.a. sú að rifja upp atburði í sögu þjóðarinnar sem ekki eru í hávegum hafðir þessa stundina eða hafa þokað nokkuð til hliðar.
Atburðir, sem yfirgnæfðu flest annað á sinni tíð, hafa oft þokað svo í skuggann að menn hvá ef minnst er á þá. Fjárkláðinn á 19. öld var slíkt hitamál að sjálfur Jón Sigurðsson lenti í "ónáð" hjá fylgismönnum sínum og félögum í sjálfstæðisbaráttunni og kláðadeilur fylltu síður blaðanna ekki viku eftir viku eða mánuð eftir mánuð heldur áratug eftir áratug. Það var eðlilegt á þeirri tíð þegar sauðfjárrækt var ein þýðingarmesta atvinnugrein landsmanna og ullariðnaður á heimilum helsta iðngrein Íslendinga. Nú hefur landbúnaður þokað rækilega til hliðar í sem atvinnuvegur í hugum landsmanna og ullin hvort sem er mestöll flutt lítt unnin úr landi. Fjárkláðinn síðari er því rækilega gleymdur.
Fjárkláðinn fyrri, sem geisaði á 18. öld og hafði breiðst út um stóra hluta suður-, vestur- og norðurlands, er enn betur gleymdur, mjög ómaklega, því útrýming þess skæða vágests er eitt mesta skipulagslegt afrek Íslendinga fyrr og síðar. Með markvissum niðurskurði og fjárskiptum tókst á 10-15 árum að útrýma kláðanum þótt þá væru aðstæður mjög erfiðar, engar girðingar, erfitt um flutninga og fá bjargráð til þar sem fé var skorið niður.
Hér á vefnum eru dregin fram nokkur atriði úr sögu Íslendinga, sem sýna ekki endilega gleymda atburði, heldur kannski frekar að sagan endurtekur sig sí og æ.