Útkall í Iðnó sumarið 1993
Undirritaður fékk pata af því að í Iðnó, Vonarstræti 3, væri eitthvað skjaladrasl að finna og fór á staðinn. Smiðir voru þá í óða önn að rífa þil frá súð sem hafði verið algjörlega lokað, þetta voru ekki geymslur. Þarna undir súðinni reyndist vera mikið magn skjala. Mikið af þeim voru innpökkuð í ómerktan umbúðapappír og bandi brugðið utanum. Ég setti þetta "drasl" í svarta ruslapoka, og urðu þeir allmargir. Inn í Skúlatún var skundað með pokana og grútdrullugar umbúðirnar teknar frá. Flestir pakkarnir voru svo skítugir að við lá að það þurfti að spúla undrritaðan eftir aðfarirnar. Ég efast um að annars hugguleg störf verði óþrifalegri en þarna varð raunin á. En óþrifnaðurinn og erfiðið voru sannarlega þess virði, því þarna leyndust gull og gersemar eins og hægt er að lesa í skjalaskrá Alþýðuhúss Reykjavíkur.
Guðjón Indriðason,
Borgarskjalasafni Reykjavíkur