Draugagangur á skjalasafninu
Eitt er það hér í mínu safni sem hefur valdið því að í einhverja tugi skipta, hafa gestir, starfsmenn, safnnotendur og menn sem hafa verið að vinna fyrir okkur, hafi hrokkið illilega við. Fólk hefur beinlínis tekið andköf, nær fengið fyrir hjartað eða í það minnsta hrokkið mjög illilega í kút.
Það sem ég er að vísa til er að í geymslu okkar leynist gína í formi original SVK-bílstjóra í fullum skrúða. Hún er föl mjög og með svarta hálftætta hárkollu. Gínunni stilltum við fyrst upp þar sem hún sást vel en hún er eitthvað svo fráhrindandi á að líta að fólk hrökk í kút í hvert sinn sem það rak augun í gripinn. Við gripum til þess ráðs að setja hana fyrst út í horn, síðan milli hillurekka og nú er hún loks komin í afþiljað sérlæst hólf félagsmálastofnunar.
En það er sama hvað við reynum - alltaf skal einhver þurfa að rekast á gínuna, oft í nokkru rökkri og maður heyrir óp og viðkomandi hrekkur í kút við að rekast á þennan "draug". Í stuttu máli þá er þetta vandamál sem sagt enn óleyst hér í safninu og vandséð hvernig við eiginlega leysum það héðan af. Maður nánast situr og bíður eftir næsta hrópi þegar einhver rekst á þennan annars ágæta minjagrip í safninu.
Leo Ingason,
Héraðsskjalasafni Kópavogs