Sjá, enn skal hátíð haldin, enn skal minnast,
og horft til baka yfir forna vegi.
Enn dregur landsins fólk sinn fána að húni
og fagnar nýjum sigri á góðum degi;
-þeim sigri að hér unir enn og lifir
sú ætt sem forðum tók sér þetta skjól
á smáum bletti smárrar reikistjörnu
er smýgur þröngan hring um móðursól.
Og þessi blettur, öllum frjáls og fagur,
friðmannsins draumaland á bak við hafið,
bauð fyrstu gestum einverunnar unað,
ósnortið land og gróðurskrúði vafið;
þögn þess var ofin elfarniði og lindar,
ilmreyr í skógi, hvönn í gili og mó
og friðarhöfn á hvítalygnum vogi
hverjum er langveg fór um krappan sjó.
Fjölgaði gestum. Stigu á þessar strandir
stríðsmenn á flótta, - enn til víga búnir.
Týndust þá friðmenn, - hurfu hljótt af sviði
hnepptir í þrældóm, vegnir eða flúnir.
Margfróða Saga, margt er sem þú felur,
-margt er í glæstri frægð, sem dylja þarf,-
en víkingahróður, trú á sverðsins sigra,
sverðguðsins dýrkun, lét þín tign í arf.
Víkinganiðjar, hvílíkt stolt í hjarta
og hrós í ættartölum fagurskráðum,
því meiri eymd og áþján sem vér þoldum
vor ást varð stærri á víkinganna dáðum.
-En skal ei minnast þess er þögnin geymir?
Þess er í gleymsku og myrkur sporlaust hvarf?
Margfróða Saga, margt er sem þú felur,
margt er í glæstri frægð, sem dylja þarf.
Svo sem í skuggsjá okkar augum birtast
ógnlegar sýnir djúpt í hyljum þínum:
Þrællinn er smáður minnist myrtra bræðra,
manið, sem nauðugt þóknast herra sínum,
barn, sem er hent af einu spjóti á annað,
- orð falla magnlaus gagnvart stærðri smán, -
skilst loks við eigin reynslu af valdi vopna
að víking dáð var samfellt Tyrkjarán.
Sverðguðsins vald er galdur heimsku og grimmdar,
gátan sem heimi reynist þyngst að skilja,
frelsi hans aðeins fals og dulin kúgun,
friður hans svikalogn á milli bylja.
-Þú sem átt landið, þjóð hins gamla og nýja,
þig hafa löngum meinvís örlög hitt:
þú áttir sverð,-en sigur þess var enginn,
-sverð þitt gekk alltaf beint í hjarta þitt.
Og enn, -þó lands þíns sælu sumarnætur
sóleyjarkrónu fylli daggarveigum,
tortryggni og hatur, eins og brim á boðum
brýtur í kringum þig í víðum sveigum;
stórveldi heimsins æpa hvert að öðru,
eyðingarkapphlaup verður nauðsyn brýn,
furðulíkt því sem fornir, heimskir risar
fjöreggi sínu kasti á milli sín.
Gott er að eiga vé í viltum heimi, -
vakað skal yfir sólskinsbletti hlýjum,
því skulu heilög friðbönd fósturjarðar,
þó fjúki blóðugt hagl úr svörtum skýjum.
Þá munu börn vor erfa úr okkar höndum
ættland sitt kvaðalaust við hel og stríð,
þá munu standa græn á okkar gröfum
grösin á sumri og vetri alla tíð.
Enn hefur vorið vafið landið armi
vetrarins ísa þítt af bláum tjörnum,
enn koma fuglar, loftsins löngu vegi
leitandi skjóls og vægðar sínum börnum,
enn væntir griða ungamamma á heiði,
enn er í kjarri þrastahreiður smátt,
enn á sér heiðló djúpt í brjósti dulinn
drauminn um eyna góðu í norðurátt.
Enn býðst sú kyrrð er friðmenn forðum þráðu
við fjallsins vötn og hraunsins birkilundi,
kyrrð, sem er ein og söm hjá blómi og barni
er brosir rótt í sínum vöggublundi.
Í mjúkri þögn og skjóli lágra skóga
þú skynjar von og traust hins horfna manns,
sú kyrrð er sjúkum hlúð og hvíldin þreyttum
og helgur dómur okkar móðurlands.
Sjá allt þitt böl í blóðgri harmasögu,
heyr bæn hins gleymda úr tímans myrka djúpi.
Mundu að forðum Ísland ögrum skorið
óflekkað reis úr hafi í sólskinshjúpi.
Lyft skírum, hvítum skildi göfugs vilja
svo skin hans beri um næstu og fjærstu svið,
þó svo þú standir ein af öllum þjóðum
undir því merki er býður sátt og frið.
Heyr Íslands lag í árdagsblæ á vori,
heyr Íslands lag í hljóðleik stjörnunótta,
og þú munt skilja að framtíð þín er falin
í friðsæld þessa lands, án stríðs og ótta.
Lát ei hinn grimma galdur um þig villa,
ráð götu þinni sjálf í lengd og bráð.
Gleym aldrei sannleik þeim, að frelsi og friði
öll fegurð mannlegs lífs er tengd og háð.
Guðmundur Böðvarsson