Skíðamót Íslands var haldið í Reykjavík dagana 10. - 15. apríl árið 1974. Þá hafði mótið ekki verið haldið í Reykjavík í 16 ár, aðallega vegna stopuls veðurfars og óöryggis með snjó eins og Þórir Lárusson, formaður mótsstjórnar segir í mótsskrá. Mótið var haldið í Bláfjöllum, þá nýju skíðasvæði Reykvíkinga, en einnig voru skíðasvæði í Hveradölum og í Skálafelli. Árið 1970 hafði verið tekin ákvörðun um að byggja upp skíðasvæði í Bláfjöllum og vegur var lagður að skíðasvæðinu fyrir páska 1972. Mikil breyting fylgdi nýjum vegi og auðveldaði aðgang almennings að skíðasvæðinu til muna og átti mikinn þátt í auknum vinsældum skíðaíþróttarinnar meðal Reykvíkinga og íbúa á höfuðborgarsvæðinu.