Árið 1974 fór af stað undirskriftarsöfnun gegn nýrri Seðlabankabyggingu sem átti að rísa norðan Arnarhóls. Seðlabankanum hafði verið úthlutað þar lóð árið 1971 eftir að hann hætti við fyrirhugaða byggingu við Fríkirkjuveg 11 eftir kröftug mótmæli borgarbúa. Eftir að framkvæmdir hófust við Arnarhól árið 1973 risu einnig öflug mótmæli gegn þeirri staðsetningu á nýju húsnæði Seðlabanka Íslands. Beindust mótmælin einkum gegn því að útsýni frá Arnarhóli yrði skert verulega ef byggt yrði svo nálægt honum. Undirskriftarsöfnunin bar árangur því framkvæmdir voru fljótlega stöðvaðar. Teikningum var breytt og fyrirhuguð bygging færð norðar, auk þess sem Sænska frystihúsið var látið víkja fyrir hinni nýju byggingu. Það var þó ekki fyrr en árið 1987 sem Seðlabankinn flutti inn í nýtt hús norðan Arnarhóls, við Kalkofnsveg 1. Þess má til gamans geta að draumur bankamanna um bankahús á Arnarhóli var ekki ný af nálinni en með bréfi dags. 12. nóvember 1915 sótti Landsbanki Íslands um leyfi til að byggingar á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu. Bæjarstjórnin tók vel í erindið á þessum tíma en svo virðist sem áhugi Landsbankamanna hafi kulnað og ekkert varð að byggingu bankahúss á Arnarhvoli að sinni.
Njörður Sigurðsson