Ólafur Noregskonungur heimsótti Ísland dagana 5. - 9. júní 1974. Hann sigldi til landsins á konungssnekkjunni Norge og lagðist að bryggju við Miðbakka. Svo erfið var förin yfir Norður-Atlantshafið að fresta þurfti dagskrá heimsóknarinnar um einn dag. Hann dvaldi tvo daga í Reykjavík, flaug til Akureyrar og sigldi svo frá Reykjavíkurhöfn til Vestmannaeyja á leið sinni heim.
Þann 6. júní bauð borgarstjórn Reykjavíkur til hádegisverðar á Kjarvalsstöðum til heiðurs Noregskonungi. Sem dæmi um skjöl frá heimsókninni má nefna boðskort til hádegisverðarins, sætaskipan og matseðil, auk ljósmynda. Boðið var upp á nautatungu með piparrótarsósu í forrétt, nýjan lax með hollenskri sósu í aðalrétt og pönnukökur með rjóma á eftir.
Svo til hver mínúta heimsóknarinnar var skipulögð en það má sjá í vinnuskjali sem notað var varðandi tilhögun heimsóknarinnar. Hér má sjá klausu úr skjalinu varðandi hádegisverðinn á Kjarvalsstöðum:
„Klæðnaður: dökk föt.
Kl. 11:40 hittast fyrir utan Hótel Sögu þeir sem fara í bifreiðalestinni til Kjarvalsstaða, aðrir en konungur og Major Lillestö.
Kl. 11:50 (eða rúmlega það) ekið af stað til Kjarvalsstaða og komið þangað kl. 12:02 (forsetahjón koma kl. 12:00).
Eftir að aðrir gestir eru sestir ganga til borðs konungur, forsetahjón og borgarstjórahjón.
Að loknum forréttinum flytur borgarstjóri stutt ávarp.
Í lok máltíðar segir konungur nokkur orð.
Myndatökur verða leyfðar í 2-3 mínútur eftir að sest er að borðum. Þórður Einarsson verður viðstaddur á meðan.
Þegar ekið er frá Kjarvalsstöðum og komið að horninu á Hringbraut og Tjarnargötu fer bifreið nr. 1 til hægri að Ráðherrabústaðnum, en hinar bifreiðarnar halda áfram að Hótel Sögu.“
Jóhanna Helgadóttir