Þann 1. ágúst 1974 hófst boðhlaup um 300 félaga úr mörgum íþrótta- og ungmennafélögum í Reykjavík og Suðurlandi í tilefni Þjóðhátíðar í Reykjavík sem haldin var 3.-5. ágúst. Hlaupið var með kyndil frá Ingólfshöfða til Reykjavíkur, samtals 385 km. og hljóp hver hlaupari um einn km. Sunnlendingar hlupu með kyndilinn að Kambabrún fyrir ofan Hveragerði og þar tóku íþróttamenn úr Reykjavík við og hlupu það sem eftir var leiðir að Arnarhóli. Kl. 14. laugardaginn 3. ágúst hljóp hinn landskunni spretthlaupari Vilmundur Vilhjálmsson síðasta spölinn að Arnarhóli og tendraði þar langeld við styttu Ingólfs Arnarssonar. Eldurinn logaði út Þjóðhátíðina í Reykjavík í anda Ólympíuleikanna.
Áður en hlaupið hófst frá Ingólfshöfða var afhjúpað minnismerki um landnám Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámsmannsins. Sagnir herma að þar hafi Ingólfur lent báti sínum og haft vetursetu en hann reisti sér síðar bæ í Reykjavík, eins og öll íslensk börn læra í skóla. Enn fremur var Ingólfshöfði friðlýstur á Þjóðhátíðarárinu. Það var Sigurður Björnsson á Kvískerjum sem afhjúpaði minnisvarðann en viðstaddir voru nokkrir Öræfingar, Þjóðhátíðarnefnd Reykjavíkur og fjöldi fréttamanna. Flogið var með gesti til Fagurhólsmýrar um morguninn 1. ágúst og þaðan með þyrlu út í Ingólfshöfða.
Njörður Sigurðsson