Græna byltingin Opna úr „Bláu bók“ Sjálfstæðisflokksins frá 1974 um grænu áætlunina eða „grænu byltinguna“ eins og hún var kölluð. Fyrir bæjar- og borgarstjórnarkosningar gaf Sjálfstæðisflokkurinn út stefnumál sín um árabil. Fékk þetta rit viðurnefnið „Bláa bókin“. Smellið á myndina til að sjá stærri mynd.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur: Smáprent. Askja 36.


Meðmælendur Frjálslynda flokksins
Fyrir borgarstjórnarkosningar þurfa þeir flokkar sem ætla að bjóða fram lista að skila inn ákveðnum fjölda meðmælenda. Hér má sjá eitt blað með meðmælendum fyrir lista Frjálslynda flokksins í borgarstjórnarkosningum 1974.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur: Málasafn borgarstjóra. Askja 578.

Fundargerð 1. kjördeildar í Álftamýrarskóla
Fundargerð 1. kjördeildar í Álftamýrarskóla í borgarstjórnarkosningum 1974 sem fyllt var út eftir að kjörstað hafði verið lokað eða kl. 23:05 eins og segir í fundargerðinni. Þar segir enn fremur að 776 hafi kosið af 848 sem voru á kjörskrá en það er 91,5% kjörsókn.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur: Málasafn borgarstjóra. Askja 578.

Borgarstjórnarkosningar 1974
og „græna byltingin“

Árið 1974 var mikið kosningaár en þá gengu landsmenn bæði til Alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga. Í Reykjavík fóru borgarstjórnarkosningar fram 26. maí og buðu fram fimm flokkar; Sjálfstæðisflokkurinn, Alþýðubandalagið, Framsóknarflokkurinn, Samtök frjálslyndra og vinstri manna og Frjálslyndi flokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn hafði meirihluta að verja en frá því flokkurinn bauð fyrst fram í bæjarstjórnarkosningum 1930 hafði hann ávallt haldið meirihluta sínum. Það var Birgir Ísleifur Gunnarsson, borgarstjóri sem fór fyrir Sjálfstæðisflokknum árið 1974. Eitt frægasta stefnumál flokksins í þessum kosninum var viðamikl áætlun sem fljótlega varð þekkt sem „græna byltingin“. Hún fól í sér meiri áherslu á gróður og græn svæði innan borgarmarkanna og var nokkurs konar mótvægi við hina „svörtu byltingu“ sem malbikunaráætlun sjöunda áratugarins var stundum nefnd. Síðar gerði hljómsveitin Spilverk Þjóðanna lagið Græna byltingin þar sem góðlátlegt grín var gert að þessari áætlun Sjálfstæðismanna og deilt á loforð um græn svæði meðan sömu menn stefndu að því að taka hlut Arnarhóls undir Seðlabanka.

Úrslit borgarstjórnarkosninganna 1974 urðu þannig að Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur og náði níu mönnum í borgarstjórn af fimmtán. Alþýðubandalagið náði inn þremur mönnum, Framsóknarflokkurinn vann tvo menn og Samtök frjálslyndra og vinstri einn en Frjálslyndi flokkurinn engan.

Njörður Sigurðsson

Heimildir:
  • Eggert Þór Bernharðsson: Saga Reykjavíkur.
    Borgin 1940-1990
    . Fyrri hluti. Reykjavík 1998.
  • Kosningaskýrslur 1874-1987. Fyrsta til annað bindi. Reykjavík 1988.