Héraðsskjalasafn Austfirðinga Mottó skjaladagsins er Líkami - heilsa - íþróttir. Héraðsskjalasafn Austfirðinga mun taka fyrir einstakling sem öðrum fremur hefur sett mark sitt á líkamsmennt Austfirðinga og sýndi í verki að orðtakið heilbrigð sál í hraustum líkama er annað en orðin tóm ef einstaklingar með hugsjón ná að véla um. Þórarinn Sveinsson var um árabil kennari við Alþýðuskólann á Eiðum og kenndi þar m.a. leikfimi. Hann var í fararbroddi þeirra sem unnu að íþrótta-og æskulýðsmálum á Austurlandi, áhrif hans náðu víðar en til fjórðungsins. Áformað er að vinna úr einkaskjalasafni Þórarins Sveinssonar sem hér er varðveitt og er allmikið að vöxtum. Það tengist að verulegu leiti íþróttum og líkamsmennt. Þar eru fyrirlestrar, dagbók frá för á olympíuleika, ýmislegt tengt kennslu hans í leikfimi, einkabréf og ljósmyndir. |
|
Stutt æviágrip Þórarinn Sófus Sveinsson var fæddur 22. apríl 1907 á Kirkjubóli í Norðfirði. Hann stundaði nám við Alþýðuskólann á Eiðum 1926-28, sótti íþróttanámskeið ÍSÍ 1924-25, Íþróttaskólinn Ollerup Danmörku 1929-30. Kennarapróf í sérgrein 1934. Kennari við Alþýðuskólann Eiðum frá 1935 til dauðadags. Í Íþróttaráði Austurlands meðan það starfaði 1932-41, formaður þess síðustu árin. Gjaldkeri Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands 1941-46 og 1948-52. Átti sæti í hreppsnefnd Eiðahrepps frá 1938. Þórarinn sótti Ólympíuleikana sem haldnir voru í Berlín 1936. Yfir þessa för hélt hann dagbók sem varðveitt er á Héraðsskjalasafninu. Þarna var hann í hópi kennara og íþróttafrömuða sem sóttu leikana. Þórarinn skráði niður ítarlegar frásagnir af þessari miklu íþróttakeppni sem hann flutti nemendum sínum. 12 árum seinna voru næstu leikar haldnir í London, þangað fór Þórarinn og sem áður flutti hann nemendum sínum frásagnir af leikunum. Þessir fyrirlestrar hans eru varðveittir á "Safninu". Þórarinn kvæntist Stefaníu Ósk Jónsdóttur 1939, þau eignuðust 11 börn. Þórarinn lést af slysförum 31. október 1972. |