|











|
Ást og umhyggja
Norræni skjaladagurinn
Laugardaginn 10. nóvember var haldinn Norrænn skjaladagur. Markmið dagsins er að kynna skjalasöfn á Norðurlöndunum, bæði þjóðar- og héraðaskjalasöfn. Með deginum er að minnt á söfnin og hlutverk þeirra í samfélaginu og er ætlunin að Nærræni skjaladagurinn verði árviss atburður.
Skjalasöfn geyma mikilvægar heimildir um Íslands- og héraðasögu, um persónusögu og félagsmál, réttindamál almennings og margt fleira. Til skjalasafnanna er því margt að sækja, bæði fyrir áhugamenn og grúskara um forna og nýja sögu og fyrir fólk sem þarf að leita réttar síns ýmissa hluta vegna.
Að þessu sinni var þema dagsins ást í víðum skilningi, kærleikur og umhyggja. Áhersla var lögð á að sýna gögn um föðurlandsást, ást til maka og skyldmenna, umhyggju fyrir náunganum, ræktarsemi við heimabyggð eða skóla og náttúrudýrkun svo eitthvað sé nefnt.
Þjóðskjalasafn Íslands og nokkur héraðsskjalasöfnin höfðu opið hús þennan dag. Leitast var við að sýna gögn er tengjast ástinni með einhverjum hætti. Starfsfólk kynnti jafnframt starfsemina og leiðbeindi gestum sem geta t.d. kynnt sér gögn um uppruna sinn.
Þjóðskjalasafni voru einnig sýnd afrit skjala um vesturfara, sem safnið fékk nýlega að gjöf frá Þjóðskjalasafni Kanada, og er þar greint frá landnámi Íslendinga í Manitoba.
Þjóðskjalasafn Íslands var opið frá 11.00 til 16.00 þennan dag.

Erfðaskrá Helgu Eggertsdóttur eldri, 5. ágúst 1727.
(ÞÍ. Einkaskjalasafn: E-2. Skarðverjar).
„Skjal fyrir hálfri erfðinni eftir sál. Helgu Eggertsdóttur eldri sem kom í hlutdeild hennar systurdætra.
Ég undirskrifuð, Helga Eggertsdóttir eldri gjöri hér með vitanlegt, þar sem ég á nú engva lífs erfingja og ekki vonlegt er að ég þá hér eftir eiga kunni sökum áfallandi aldurdóms, en mínum góða guði hefur þóknast að kalla til síns dýrðarríki fyrir tímanlegan dauða nokkrum tíma hér fyrir mína elskuliga systur Arnfríði Eggertsdóttur sem var ein af mínum sambornu systrum og nánustu erfingjum."

Bréf Valgerðar Gísladóttur á Skarði til móður sinnar
(ÞÍ. Skjalasafn Barðastrandarsýslu. III, 1. Bréfabók Eggerts Björnssonar á Skarði 1632-1673).
,,Drottinn blessi yður að eilífu og veri yður sálar og lífs g[leði]? og unaðsemd alla daga og stundir.
Minn elsku hjartans faðir heldur er mér nú angur en gleði af því ég merki hvernig mótkastlega til fyrir yður geng[ur] hvað drottinn veit ég vildi ekki tilefni til vera ef ráða mætti. Helgu skrifa ég ekki til að sinni því ég vill hana ekki styggja yður til sturlunar".

Jón Eiríksson í Hörgsdal vill skilja við konu sína en kvænast aftur.
(ÞÍ. Kansellísafn: KA-70).
„Hér á mót gef ég, Arnbjörg Þórarinsdóttir, áður skrifuðum manni mínum, Jóni Eiríkssyni, ekki einungis mitt ljúft leyfi heldur og legg innilega bón til að hann, að mér lifandi vegna veikinda minna og ómögulegleika að fullnægja minni móðurskyldu sem ber, samt fleira okkur kunnra orðsaka, mætti fá allra náðugasta leyfi til egta stúlkuna Guðr[únu] Oddsdóttur, sem hjá okkur hefur verið átta ár og ekki einungis prýðilega farið með okkar börn og búsnytjar, heldur og verið mér sem góð systir, móti því að nefndur minn maður haldi sína ofan boðnu lofun um uppheldi og aðhjúkrun við mig."
|
|